150. löggjafarþing — 101. fundur,  11. maí 2020.

útlendingar og atvinnuréttindi útlendinga.

717. mál
[20:12]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, það er vel hugsanlegt að íslenskur vinnumarkaður sé fulllokaður fyrir fólkið sem leitar hingað til vinnu og manni hefur stundum fundist að borið hafi á því að fólk komi hingað í atvinnuleit kannski of mikið á forsendum atvinnurekenda, þeirra sem ráða fólk til vinnu. En þá er líka að því að hyggja að það er mjög mikilvægt að fólk sem hingað kemur til vinnu njóti verndar, að það sé allt uppi á yfirborðinu, öll sú atvinnustarfsemi, og að ekki sé brotið á réttindum fólks sem getur orðið hætta á ef þetta fer undir radarinn.

Varðandi umsóknir og afgreiðslu þeirra þá er það vissulega rétt hjá hæstv. ráðherra að það er góð og mannúðleg afgreiðsla þegar fólk fær þetta leyfi hratt og vel. Það er að sjálfsögðu ástæða til að fagna því. En ég ítreka hitt varðandi þau mál sem við þekkjum og hafa komið upp og hafa stundum leitt til þeirrar niðurstöðu að fólk hefur fengið dvalarleyfi, vegna þess að almenningsálitið hefur skorið upp herör, að hætt er við að slík mál fái í framtíðinni ekki sambærilega afgreiðslu einmitt vegna hraðrar og skilvirkrar afgreiðslu.