150. löggjafarþing — 101. fundur,  11. maí 2020.

útlendingar og atvinnuréttindi útlendinga.

717. mál
[20:42]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þetta andsvar. Ég aðhyllist líka mjög skilvirka stjórnsýslu. Ég vildi gjarnan að við gætum séð hana sem víðast, t.d. hjá öðrum stofnunum hæstv. ráðherra, svo sem hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu þar sem börn fá að bíða mánuðum saman eftir því að niðurstaða fáist í mál þeirra hvað varðar umgengni, en við hæstv. ráðherra höfum nú talað um það áður. Skilvirkni er af hinu góða. Það er mannúðlegt að ástunda skilvirkni í sjálfu sér hvar sem er í kerfinu en því miður er skilvirkni enginn lykill að mannúðlegri niðurstöðu eða mannúðlegri meðferð, bara hreint ekki. Það að einblína á orðið „skilvirkni“ getur leitt til þess að einstaka mál, þar sem nauðsynlegt er að rannsaka almennilega það sem á sér stað, fara forgörðum og mannúðin tapast. Það getur orðið til þess að einstaklingarnir á bak við númerin fái ekki hér nauðsynlega vernd.

Í frumvarpinu er veitt heimild til þess að synja einstaklingi um vernd hér á landi og efnismeðferð í fyrsta viðtali, að tilkynna í fyrsta viðtali: Nei, við teljum að umsókn þín sé tilhæfulaus af því að frásögn þín er fjarstæðukennd. Þá ætla ég hér á síðustu tíu sekúndunum að segja frá því að þegar ég starfaði á árum áður sem talsmaður umsækjenda um alþjóðlega vernd heyrði ég oft fjarstæðukenndar sögur (Forseti hringir.) sem þó voru dagsannar. Ég trúði ekki mínum eigin eyrum (Forseti hringir.) og augum, að fólk hefði lifað af (Forseti hringir.) slíka fjarstæðu í lífi sínu í heimalandi eða á flótta. Þetta var fjarstæðukennt (Forseti hringir.) en þetta var sannleikurinn, líf þess, og (Forseti hringir.) stundum bíður fólk þess aldrei bætur. Við þurfum að hugleiða það.

(Forseti (ÞorS): Forseti minnir á tímamörk.)