150. löggjafarþing — 102. fundur,  12. maí 2020.

störf þingsins.

[13:40]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Sá sem hér stendur og við í Viðreisn höfum alla tíð sagt að við greiðum götu allra góðra mála ríkisstjórnarinnar á þessum erfiðu tímum og við það höfum við staðið. Þeim mun verra þykir okkur hve staðfastir stjórnarflokkarnir eru í því að hafna öllum tillögum okkar í Viðreisn, og raunar stjórnarandstöðunnar í heild sinni, að því er virðist oftast án þess að hafa gefið nokkurn gaum að kostum þeirra og göllum. Þetta er mikill ljóður á samstarfinu á hv. Alþingi, ekki síst í ljósi þeirrar áherslu sem lögð var á hlutverk þingsins í stjórnarsáttmálanum. Þar segir, með leyfi forseta:

„Óvenjulegar aðstæður kalla á breytt vinnubrögð, opnari stjórnsýslu, gagnsæi og virðingu gagnvart verkefnum. Það er vilji flokkanna sem nú taka þátt í samstarfi um ríkisstjórn og eflingu Alþingis að nálgast verkefnin með nýjum hætti í þágu alls almennings í landinu, ekki síst með því að styrkja Alþingi með markvissum hætti og auka áhrif þess.“

Aldrei verður of oft bent á hversu mikill munur er á orðum og efndum. Þetta var vissulega sagt í nóvember árið 2017, en hafi aðstæður verið óvenjulegar þá hvað má þá segja um stöðuna í dag?

Herra forseti. Þriðji aðgerðapakki ríkisstjórnarinnar var kynntur 28. apríl sl. Núna, hálfum mánuði síðar, er ekkert frumvarp komið til þingsins til að vinna með og það er vægast sagt bagalegt, ekki síst í ljósi þess að þau loforð sem þar eru gefin eru þess eðlis að fólk er þegar tekið að starfa eftir þeim. Nú er að koma í ljós að ríkisstjórnin vill setja ýmis skilyrði fyrir aðstoð sinni. (Forseti hringir.) Hvaða skilyrði verða nú sett sem koma þá í bakið á þeim sem fara þessa leið? Þetta eru ekki góð vinnubrögð, herra forseti.