150. löggjafarþing — 102. fundur,  12. maí 2020.

störf þingsins.

[13:47]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Frú forseti. Ég ætla að lesa hér, með leyfi forseta, bókun sem ég sendi inn til velferðarnefndar í gær.

„Formaður velferðarnefndar lagði til að velferðarnefnd flytti frumvarp til að girða fyrir að rekstraraðilar sem nýttu sér hlutabótaúrræði ríkisstjórnarinnar gætu greitt sér út arð eða keypt hlutabréf á meðan þeir nytu ríkisaðstoðar.“

Ég skýt því hér inn, forseti, að frumvarpinu er ekki ætlað að taka á neinu öðru enda hugsað til að bregðast við augljósum galla á lagasetningu sem allra fyrst. Svo held ég áfram, með leyfi forseta:

„Almennt á ríkisvaldið ekki að verja almannafé til stuðnings fyrirtækjum sem nota fjármuni til þess að greiða eigendum sínum arð eða annan hagnað. Í fordæmalausum efnahagsþrengingum eins og þeim sem nú ganga yfir eru slíkar ráðstafanir ólíðandi með öllu. Frumvarp formanns er nauðsynlegt til að tryggja endurkröfurétt stjórnvalda á hendur fyrirtækjum sem stunda slíkt og hefði flutningur nefndarinnar á því verið mikilvægur þáttur í því að tryggja áframhaldandi samstöðu í samfélaginu með þeim úrræðum sem verið er að grípa til. Meiri hluti nefndarinnar kýs að leggjast gegn tillögu formanns með þeim rökum að sambærilegs frumvarps væri að vænta frá félags- og barnamálaráðherra. Þess frumvarps er þó ekki að vænta í þinglega meðferð fyrr en í lok vikunnar og mun ekki taka gildi fyrr en um næstu mánaðamót. Afstaða meiri hlutans tryggir að fyrirtæki sem eru að misnota eða ætla sér að misnota hlutabótaleiðina hafi til þess talsvert lengri tíma en ella. Undirrituð harmar þessi vinnubrögð og lýsir djúpum vonbrigðum með starfshætti meiri hluta velferðarnefndar.“

Ég bæti við í lokin að það hefði verið létt verk að samþykkja frumvarpið og tryggja þannig endurkröfurétt stjórnvalda á hendur fyrirtækjum strax þó að ráðherra sé kominn með annað ítarlegra mál sem gengur lengra síðar. Þetta var ekki annaðhvort/eða, við hefðum getað gert bæði. Þar af leiðandi finnst mér niðurstaða meiri hlutans stórfurðuleg.