150. löggjafarþing — 102. fundur,  12. maí 2020.

störf þingsins.

[13:49]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Samkvæmt nýjustu tölum eru 2.519 einstaklingar á biðlista og búnir að bíða í þrjá mánuði eða lengur. Heildarfjöldi þeirra sem eru á biðlistum í dag er að nálgast 4.500 manns. Það er staðreynd að þeir sem þar bíða eru að bíða eftir brjósklosaðgerðum, augasteinaaðgerðum, liðskiptaaðgerðum og bíða og bíða. En hræsni okkar ríður ekki við einteyming. Á sama tíma og við erum að dæla núna ekki milljörðum, ekki tugmilljörðum heldur hundruð milljörðum í einkarekin fyrirtæki til að bjarga þeim, segjum við: Nei, við megum ekki nota einkarekin fyrirtæki til þess að stytta biðlista. Við setjum 400 milljónir í fjölmiðla, einkarekna fjölmiðla, en það má ekki setja 400 milljónir t.d. í Klíníkina í Ármúla til að gera 400 aðgerðir. Nei, það má frekar senda viðkomandi til Svíþjóðar eða annað og gera þar 400 aðgerðir fyrir 1,2 milljarða. Hvaða réttlæti er í því? Hvernig stendur á að staðan skuli enn þá vera þannig í dag að fólk kvelst á biðlistum? Það er dauðans alvara að þurfa að hanga á biðlistum, bryðjandi rótsterkar verkjatöflur, láta fjölskyldu og vini horfa upp á þetta. Og hvað erum við þá að gera? Jú, við erum að framleiða öryrkja í boði ríkisins.