150. löggjafarþing — 102. fundur,  12. maí 2020.

störf þingsins.

[14:01]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Forseti. Mig langar að kynna Grasrótarann sem Píratar hafa sett á loft. Þetta er tækifæri þar sem þeir sem þekkja til í innra starfi Pírata vilja að unnið sé að grunnstefnunni, verndun borgararéttinda og aukinni þátttöku almennings í málum sem hann varða og þeirra sem vilja vinna að þessum málum en vita kannski ekki hvar þeir eiga að byrja. Það er alltaf þannig með sjálfboðadrifnar hreyfingar, eins og Píratar eru og líklega allir stjórnmálaflokkar, að það verður að tengja saman þá sem þekkja starfið, hvaða verkefni eru í boði, þá sem hafa þekkinguna og vilja deila henni og þá sem vilja taka þátt, vilja læra, vilja vinna.

Það er það sem Grasrótarinn er. Þeir sem þekkja Kickstarter, að sparka hlutunum af stað, kannast við fyrirbærið. Ef við bíðum, forseti, tengjum við saman þá sem eru með eitthvert verkefni, eru með einhverja vöru en vantar fjármagn til þess að fara af stað með það og þá sem vilja vöruna og eru tilbúnir að borga. Grasrótarinn er þannig fyrir grasrótarstarf. Þeir sem hafa áhuga á að taka þátt í því verkefni sem ég hef sett af stað hérna, sem er Alþingi 101, starfið í anda grunnstefnunnar, geta farið á x.piratar.is og þar opnast síða þar sem stendur Píratar efst vinstra megin, Yfirlit þar fyrir neðan o.s.frv. Neðst niðri er hönd á lofti, Grasrótarinn, og þar er hægt að smella og skrá sig inn. Þetta er nokkuð sem flestir stjórnmálaflokkar ættu að taka upp. Félagasamtök ættu að taka þetta upp. Þetta er það sem Sameinuðu þjóðirnar hafa núna gert í 20 ár og er núna „online volunteering“. Þeir sem hafa áhuga því geta skráð sig þar sem við tengjum saman fólk virkilega til samfélagslegra þátta og virkilega til góðra starfa.

Þetta fyrsta verkefni sem ég hef sett hérna inn er námskeið, Alþingi 101, þingstarfið í anda grunnstefnunnar, þar sem ég er að safna a.m.k. sjö aðilum sem hafa áhuga, fleiri eru síðan mögulegir, á að fara að skoða. Markmið námskeiðsins er að þátttakendur öðlist það góðan skilning á því hvernig Alþingi virkar að þeir geti sinnt þingstarfinu vel eða aðstoðað þingmenn sem (Forseti hringir.) eru að sinna því.