150. löggjafarþing — 102. fundur,  12. maí 2020.

störf þingsins.

[14:03]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég vil eins og fleiri taka undir með ákveðnum fögnuði að það er að nást verulegur árangur í baráttu okkar við Covid. Og hvað segir það okkur? Það segir okkur að við eigum að hlusta á vísindafólkið okkar. Það segir okkur líka að samstarf einstaklinga, vísindamanna, hópa og þjóða hefur aldrei verið mikilvægara. Við áttum okkur á því að í baráttunni við veiruna hefur það skipt gríðarlega miklu máli að hlusta á vísindamenn. Þá gildir það að sjálfsögðu líka um önnur svið. Í mörg ár hafa vísindamenn verið að vara okkur við loftslagsbreytingum, varað okkur við umhverfisvánni sem vofir yfir okkur og öllum heiminum. Þess vegna skiptir samstarf þjóða miklu máli og meira en nokkru sinni fyrr. Ef menn halda að við í Viðreisn ætlum ekki að tala áfram um alþjóðasamstarf, um Evrópusambandið, bannorðið hér í þessum sal, varnarsamstarf, vestræna samvinnu og dýpkun á alþjóðasamstarfi, fara þeir villir vegar. Það er mín skoðun og mitt álit að því lengra sem líður á baráttuna gegn veirunni, því mikilvægara er fyrir okkur að standa saman vörð um ákveðin gildi alþjóðasamstarfs, lýðræðis, frelsis og opins samfélags. Þetta er nákvæmlega tíminn.

Ég vil sérstaklega fagna því að utanríkisráðherrar Norðurlandanna hafa allir gefið skýr skilaboð varðandi ömurlega lýðræðislega þróun í Ungverjalandi. Þannig eigum við líka að bregðast við sem opin, frjáls og fullvalda þjóð. Við eigum að láta í okkur heyra og við eigum að dýpka samstarf okkar við aðrar þjóðir á öllum sviðum, hvort sem það er á sviði umhverfismála, efnahagsmála, sviði (Forseti hringir.) lýðræðis og mannréttinda. Það er verkefni sem við eigum fyrir höndum.