150. löggjafarþing — 102. fundur,  12. maí 2020.

störf þingsins.

[14:06]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegur forseti. Það hefur verið stefna stjórnvalda að styðja vel við bakið á garðyrkju, ekki síst vegna þeirra jákvæðu áhrifa sem græn atvinnustarfsemi hefur á aðgerðir í loftslagsmálum og ákalls um fæðuöryggi og sjálfbærni. Við köllum á eflingu garðyrkjunáms. Allt frá því að Landbúnaðarháskóli Íslands hóf fyrir ári að innleiða nýja stefnu og fyrirkomulag í garðyrkjunámi hefur verið varað við þeim afleiðingum sem það hefur á nám og störf í garðyrkju, hefur mér verið tjáð. Hnökrar í framkvæmd starfsmenntanáms geta haft mjög alvarlegar afleiðingar fyrir námið. Það eru átök í landbúnaðarháskólunum milli stjórnenda skólans og mér er sagt að embættismenn hafi lítinn skilning á gagnrýni sem hefur beinst að nýrri stefnu, umgjörð námsins og fyrirkomulagi. Upplifun fólks er samráðs- og virðingarleysi í garð þeirra sem stunda störf í garðyrkju og eru í starfsmenntanámi. Það hefur verið til umræðu innan garðyrkjunnar að ekki verði fýsilegur kostur að taka við nemendum Garðyrkjuskólans í verknám í garðyrkjufyrirtæki, enda stefna skólans ekki í takt við þarfir og óskir atvinnulífsins í greininni.

Í fyrra var því fagnað að 80 ár væru liðin frá því að garðyrkjunám hófst á Reykjum í Ölfusi. Nú þarf að ganga til þess verks að tryggja öflugt starfsmenntanám í garðyrkju á framhaldsskólastigi í vöggu garðyrkjunáms í landinu á Reykjum í Hveragerði.

Virðulegur forseti. Ég heiti á okkur öll, þingmenn og ráðherra menntamála, að styðja við eflingu og uppbyggingu garðyrkjunáms í heilbrigðu og frjóu starfsumhverfi í Hveragerði. Ótal tækifæri til framtíðar liggja í garðyrkjunni sem mikilvægt er að nýta án frekari tafa með öflugu starfsmenntanámi Garðyrkjuskólans á Reykjum í Ölfusi.