150. löggjafarþing — 102. fundur,  12. maí 2020.

um fundarstjórn.

[14:11]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég kem hér upp vegna þeirra atburða sem voru í velferðarnefnd í gær sem snerust um svolítið sérstaka hluti, að velferðarnefnd myndi samþykkja í heild sinni þingmannamál eða mál frá formanni. Sagt er að við höfum að einhverju leyti hafnað því, sem ég skil ekki vegna þess að það er hægt að fara fram með mál einstakra þingmanna, þingmaðurinn þarf ekki samþykki nefndarinnar fyrir því. Við fengum til okkar sérfræðing um þessi mál og það kom fram að við gætum vissulega lagt þetta mál fram, hver og einn, en það gæti kallað á skaðabótakröfu á ríkið, það væri ekki á hreinu. Þannig að mér finnst það mjög sérstakt að leggja þetta upp þannig að við séum að hafna einhverju þegar við vissum það, fengum kynningu á málinu frá ráðherra, og í því stendur að það uppfylli öll skilyrði. Og það er ekkert sem segir að þó að þetta mál hefði verið samþykkt í gær hefði það verið samþykkt hér á þingi í dag.