150. löggjafarþing — 102. fundur,  12. maí 2020.

um fundarstjórn.

[14:15]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég tek undir orð hv. þm. Halldóru Mogensen. Það er alvanalegt að nefndir komi með stutt frumvörp til að lagfæra það sem áður hefur verið gert, ekki síst þegar frumvarp hefur verið samþykkt og unnið í mjög miklum flýti eins og var gert með hlutabótafrumvarpið á sínum tíma. Nefndin breytti auðvitað því máli mjög mikið og þess vegna er mjög eðlilegt að nefndin reyni að gera lagfæringar á því. Það kom fram í máli sérfræðinga fyrir nefndinni í gær, (Gripið fram í.) þó að ekki eigi að vitna í það vil ég gera það af því að hv. þm. Halla Signý Kristjánsdóttir gerði það hér, að þau lögðu bæði áherslu á að málið færi hratt inn í þingið og yrði samþykkt hratt. Það er okkar að standa vörð um ríkissjóð og reyni að tryggja hagsmuni skattborgara og íbúa landsins og það skiptir máli hvort við samþykkjum mál sem ráðherra er að fara að flytja og tekur gildi eftir þrjár vikur eða að geta samþykkt þetta mál núna og gefa þessa heimild núna. (Forseti hringir.) Það er hins vegar ekkert um það að þetta mál, frekar en mál ráðherra, baki skaðabótaskyldu. (Forseti hringir.) Það kom ekki fram og það veit ég.