150. löggjafarþing — 102. fundur,  12. maí 2020.

um fundarstjórn.

[14:21]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Ég er að reyna að átta mig á þessum orðhengilshætti sem er í gangi um afstöðu. Vissulega tók meiri hluti velferðarnefndar afstöðu með því að neita að laga hlutabótaleiðina núna og vilja frekar bíða í þrjár vikur. Hlutabótaleiðin er búin að vera í gildi núna í tvo mánuði. Það hafa verið tveir mánuðir, að sögn stjórnvalda, til að misnota hlutabótaleiðina. Þetta hefur verið staðan núna í tvo mánuði en meiri hlutinn vill bíða eftir löggjöf sem á að taka gildi eftir þrjár vikur til þess að fyrirtæki hafi örugglega tvo mánuði og þrjár vikur til þess að misnota hlutabótaleiðina. Það er afstaða falin í því, virðulegi forseti. Að segja eitthvað annað er bara orðhengilsháttur.