150. löggjafarþing — 102. fundur,  12. maí 2020.

um fundarstjórn.

[14:22]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Eins og við vitum er hlutabótaleiðin hugsuð fyrir launafólk til að halda ráðningarsambandi og þess vegna var ekki farið í mjög ströng skilyrði í upphafi til þess einmitt að halda ráðningarsambandi við fyrirtæki eins og mikilvægt er. Síðan kemur í ljós að stöndug fyrirtæki eru að misnota þessa aðferð. Það kom skýrt fram hjá ráðherrum ríkisstjórnarinnar, forsætisráðherra, félagsmálaráðherra og fjármálaráðherra, að það yrði ekki liðið. Það kom fram fyrir þó nokkru síðan og sex fyrirtæki hafa séð sóma sinn í að skila þessum fjármunum. Ég sé ekki að það skipti sköpum til eða frá að við þessar aðstæður og yfirlýsingar ráðherra um að þessu verði breytt og skilyrði hert, þegar framlenging verður á hlutabótaleiðinni, komi núna fjöldi fyrirtækja og ætli að misnota þessa leið áfram. Það er bara ekki þannig. Og þegar formaður velferðarnefndar [Frammíköll í þingsal.] veit að ráðherra er að koma með ítarlegt mál (Forseti hringir.) um þetta og ætlar að slá sig til riddara er það ansi innantómt. (Gripið fram í.)(Forseti hringir.)

(Forseti (SJS): Forseti biður um þögn í salnum. Þögn í salnum. Þetta er ekki fundur í velferðarnefnd.)