150. löggjafarþing — 102. fundur,  12. maí 2020.

um fundarstjórn.

[14:24]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U):

Virðulegur forseti. Það er ýmislegt sem virðist ekki ganga upp í því sem sagt er frá á fundi velferðarnefndar, t.d. það að sérfræðingur í vinnurétti hafi mælt með þeirri leið sem rædd var á fundinum en á sama tíma sagt að með henni myndi ríkið baka sér skaðabótaábyrgð. Þetta las ég út úr orðum hv. þm. Höllu Signýjar Kristjánsdóttur og sé ekki hvernig gengur upp að fólk tali þarna gjörsamlega í kross við sjálft sig.

Það sem mig langar aðallega að nefna er tíminn sem hv. þm. Ásmundur Friðriksson talaði um. Það er nefnilega ekki að eyða tíma að þingnefnd fari yfir það hvaða reglur gilda um neyðarráðstafanir vegna Covid. Það er ekki tímasóun að laga þær aðgerðir sem eru misnotaðar af fyrirtækjum sem ráðherrar í ríkisstjórninni eru í orði kveðnu sammála um að þurfi að laga en svo þegar kemur tillaga að lagfæringu þá er bara ekki tímabært að taka hana upp. Við erum enn þá að bíða. Þremur vikum eftir að (Forseti hringir.) aðgerðapakki þrjú var kynntur á blaðamannafundi erum við enn að bíða eftir útfærðum frumvörpum frá sömu ráðherrum, sem eru bara rétt (Forseti hringir.) handan við hornið með útfærslu á lagfæringu á hlutabótaleiðinni. Hvað eigum við að bíða lengi? Ég held að 1. júní sé bjartsýni.