150. löggjafarþing — 102. fundur,  12. maí 2020.

um fundarstjórn.

[14:28]
Horfa

Forseti (Steingrímur J. Sigfússon):

Nú held ég að flestöll velferðarnefnd sé búin að tala um fundarstjórn forseta. Forseti hlýtur af þessu tilefni að hvetja nefndarmenn í velferðarnefnd, sem og þingmenn almennt sem nefndarmenn í fastanefndum, að ræða sín samskipti og útkljá þau á þeim vettvangi, í þingnefndinni, en gera ekki allan þingsalinn að vettvangi fyrir það. Það sem fram fer á lokuðum fundum fastanefnda er í trúnaði og það er vandasamt að enduróma ummæli úr nefndum hér inn í þingsalinn og þingmenn þurfa m.a. að gæta að því. Forseti beinir almennt þeim tilmælum til nefndarmanna í fastanefndum að reyna að ræða hluti af þessu tagi þar. Það telur forseti að sé hinn rétti vettvangur, ekki þingsalurinn allur. Eða erum við miklu nær í þessu máli eftir þessa umræðu í salnum? Forseti sér það ekki.

Ég held að það sé hvorki starfsandanum þar né hér í salnum endilega til framdráttar að taka mikinn tíma í umræður sem eðli málsins samkvæmt eru líklegri til að fá farsæla niðurstöðu á þeim vettvangi sem um ræðir, þ.e. í fastanefndunum sem eru sjálfráðar í sínum störfum eins og kunnugt er.