150. löggjafarþing — 102. fundur,  12. maí 2020.

fjárstuðningur til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

725. mál
[14:52]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir framsöguna og jákvæð tíðindi í ræðunni, sérstaklega varðandi stuðningslánin og breytingartillögur sem meiri hlutinn hyggst gera á þeim. Það er mjög jákvætt, ég fagna því. Ég vildi hins vegar koma aðeins inn á lokunarstyrkina. Það var greint frá því í auglýsingu hvaða fyrirtæki þyrftu að loka og það er miðað við að þau fyrirtæki geti sótt um þessa styrki. Það hefur ekkert verið útvíkkað. Ég vil koma aðeins inn á það við hv. þingmann hvort ekki sé eðlilegt að t.d. veitingastaðir falli þarna undir, margir hverjir þurftu að loka vegna þess að það voru ekki neinir viðskiptavinir. Samtök ferðaþjónustunnar hafa lagt áherslu á þetta í sinni umsögn við frumvarpið. Við þekkjum það að rekstrarforsendur þessara fyrirtækja eru algerlega brostnar og þess vegna veltir maður fyrir sér hvort ekki sé eðlilegt að þau fái einhvers konar stuðning eins og áformaður er við fyrirtækin í auglýsingunni. Veitingastaðir hafa misst stóran hluta viðskiptavina sinna sem voru náttúrlega erlendir ferðamenn að stórum hluta. Ég vildi spyrja hv. þingmann hvort það sé ekki eðlilegt að þetta verði skoðað innan nefndarinnar og eins og ég segi hefur ferðaþjónustan lagt töluvert mikla áherslu á þetta. Í raun og veru er þetta bara sanngirnismál vegna þess að (Forseti hringir.) viðskiptin hrundu gjörsamlega og fyrirtækin þurftu að loka. Við sjáum það bara á veitingastöðum hér í miðbænum.