150. löggjafarþing — 102. fundur,  12. maí 2020.

fjárstuðningur til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

725. mál
[14:57]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið og ánægjulegt að heyra að hann sýnir því skilning að þau fyrirtæki sem ég nefndi sérstaklega, veitingahúsin, hafa verið í og eru í vanda vegna þess að viðskiptahópurinn er einfaldlega horfinn. Þess vegna spyr maður hvort ekki sé eðlilegt að skoða það og ég vona að það verði skoðað. Ég skil vel að það sé erfitt að draga mörkin en ég held hins vegar að þetta sé afgerandi, sérstaklega á landsbyggðinni, hvað veitingastaði varðar.

Í seinna andsvari langar mig að fá það fram hjá hv. þingmanni, vegna þess að nú hefur gengið brösuglega að semja við lánastofnanir og fjármálastofnanir um brúarlánin: Má vænta þess að það gangi eitthvað betur fyrir sig að semja um lánastofnanir varðandi stuðningslánin? Það er nú gallinn við aðgerðir stjórnarinnar að margt af þessu hefur verið á hraða snigilsins og ekki komið nógu hratt til framkvæmda og það er vissulega bagalegt (Forseti hringir.) og getur valdið tjóni. Ef þingmaður gæti aðeins komið inn á það.