150. löggjafarþing — 102. fundur,  12. maí 2020.

fjárstuðningur til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

725. mál
[15:00]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við erum að fjalla um nefndarálit meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar um fjárstuðning til minni rekstraraðila. Það sem ég rek augun í hérna og hef orðið var við undanfarið í þessum björgunarpökkum er þetta orðalag hagstæð kjör, sanngjörn kjör. Hvað er það? Svo er það líka hóflegt álag. Hvað finnst mér hóflegt og hvað finnst hv. þm. Óla Birni Kárasyni hóflegt? Það getur verið alveg gjörólíkt.

Hér segir að endurspegla skuli fjárhagslega áhættu lánveitanda og kostnað hans vegna fjármögnunar sem segir okkur að þeir sem skulda meira, ef það á að endurspegla áhættuna, hljóta að fá meira en hóflegt álag, það hlýtur að vera verulegt álag á þá sem skulda mest og minnst álag á þá sem skulda minnst. Ég er líka að spá í t.d. bankana. Segjum að banki sé með tíu fyrirtæki, öll eins, í samrekstri. Fimm af þeim skulda frekar lítið og svo eru fimm sem skulda mikið, þau skulda mismikið en eitt skuldar mest. Hvaða fyrirtæki væri hagstæðast fyrir bankann að bjarga, þannig að bankinn yrði fyrir sem minnstum skakkaföllum? Er það ekki það fyrirtæki sem skuldar mest? Hvernig ætlum við að koma í veg fyrir að bankinn einbeiti sér að því að bjarga þeim sem er hagkvæmast fyrir hann að bjarga og láti hina bara vera? Ég spyr hvort búið sé að hugsa um þetta í þessu frumvarpi.