150. löggjafarþing — 102. fundur,  12. maí 2020.

fjárstuðningur til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

725. mál
[15:02]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Óli Björn Kárason) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég er ekki alveg viss um að hv. þingmaður hafi kynnt sér frumvarpið eins og hann ætti að gera. Hér er verið að búa til farveg til að veita lán til fyrirtækja sem standa höllum fæti. Það er ekki eins og bankarnir séu að leitast eftir því að lána viðkomandi fyrirtækjum. Það er þess vegna sem það er nauðsynlegt að veita 100% ábyrgð, fulla ábyrgð ríkisins af fyrstu 10 milljónunum og vextirnir af því eru stýrivextir Seðlabanka Íslands. Þegar veitt er hærra lán, ef menn kunna að eiga rétt á því að uppfylltum mjög ströngum skilyrðum, er sérstaklega um það samið á milli viðkomandi lánastofnunar og Seðlabankans þar sem tekið er tillit til þess hver t.d. fjármögnunarkostnaður viðkomandi lánastofnunar er. Það liggur ljóst fyrir að fjármögnunarkostnaður lánastofnunarinnar er 0,75 prósentustigum hærri en stýrivextir Seðlabankans. Þá erum við komnir upp í rétt um 3% eða svo.

Hið hóflega álag. Ég veit ekki annað en að hóflegt álag sé það þegar menn taka tillit til þeirrar áhættu sem er 15% af því sem umfram er 10%, þá hlýtur álagið að speglast í því og vera hóflegt. Það þýðir ekki 1, 2, 3, 4, 5%. Þetta eru því líklega hagstæðustu lán sem fyrirtækjum á Íslandi hafa nokkurn tíma staðið til boða (Forseti hringir.) með hóflegu álagi. Ég fullyrði það hér (Forseti hringir.) að íslensku viðskiptabankarnir munu (Forseti hringir.) ekki hagnast með neinum hætti á því að veita þessi lán (Forseti hringir.) en þeir eru engu að síður tilbúnir til að (Forseti hringir.) taka þátt í þessari endurreisn.