150. löggjafarþing — 102. fundur,  12. maí 2020.

fjárstuðningur til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

725. mál
[15:07]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er dálítið skrýtið að taka á svona málum þar sem tveir eðlisólíkir þættir eru í gangi. Það er ákveðinn munur á styrkjunum og lánunum, bæði varðandi það að styrkurinn nýtist væntanlega helst örfyrirtækjum, nánast einyrkjum eða pínulitlum hárgreiðslustofum og nuddstofum og hvað það heitir, meðan lánin eru hugsuð fyrir fyrirtæki með veltu allt að 1.200 millj. kr. á síðasta ári ef breytingar meiri hlutans ná fram að ganga. Mér finnst þessi munur ýkjast dálítið með breytingartillögum meiri hlutans. Í frumvarpinu miðar styrkurinn við að vera að hámarki 2,4 milljónir en lánin 6 milljónir. Með breytingartillögunum fara lánin upp í allt að 40 millj. kr. Ég nefni þetta vegna þeirra ákvæða sem eru í IV. kafla frumvarpsins um viðurlög við brotum gegn lögunum, hvort sömu viðurlög geti í raun átt við þegar þú ert annars vegar með hárgreiðslustofuna og hins vegar með fyrirtækið sem er með 1.200 milljóna veltu á ári, sérstaklega þegar meiri hlutinn leggur til að herða viðurlögin. Ég skil þau viðbrögð í ljósi þess sem á undan er gengið, t.d. varðandi misnotkun á hlutabótaleiðinni, að vilja vera með skýr viðurlög en er ekki sex ára fangelsi fullharður refsirammi fyrir hárgreiðslustofu sem fær 2,4 milljónir í stuðningslán?