150. löggjafarþing — 102. fundur,  12. maí 2020.

fjárstuðningur til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

725. mál
[15:14]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að hrósa formanni nefndarinnar, hv. þm. Óla Birni Kárasyni, fyrir hvernig hann hefur haldið á málum í nefndinni og þakka samstarfið um þetta mál. Við erum hins vegar ekki alltaf sammála og það er m.a. þess vegna sem ég er með sérstakt nefndarálit og legg til breytingartillögu við frumvarpið. Samfylkingin styður efnislegar breytingartillögur meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar en tekur jafnframt undir breytingartillögur Pírata sem einnig yrðu til bóta. Samfylkingin mótmælir því hins vegar harðlega að þeir sem hafi tengsl við skattaskjól og aflandssvæði séu ekki undanskildir frá stuðningi ríkisins. Því legg ég til breytingar á 1. gr. frumvarpsins um gildissvið svo að girt verði fyrir það að fyrirtæki sem setja upp fléttur til að greiða lægri skatta hér á landi fái stuðning úr ríkissjóði.

Í samning ráðherra við Seðlabanka Íslands um svokölluð brúarlán þarf einnig að setja slíkt ákvæði og reyndar við allan ríkisstuðning að mínu mati. Jafnaðarmenn hafa ætíð barist gegn hvers konar skattundanskotum. Við getum ekki sætt okkur við að auðmenn nýti sér skattaskjól en láti almenning bera uppi samfélagið með skattgreiðslum. Milljarðar eru í skattaskjólum sem fólk felur svo það þurfi ekki að greiða sinn hlut til samfélagsins, til heilbrigðisþjónustu, í vegi, löggæslu eða þróunaraðstoð. Panama-skjölin sýndu að umfang aflandsvæðingar íslensks efnahagslífs var einstakt í heiminum á þeim tíma sem skjölin náðu til. Ástæða er til að ætla að það sé enn stundað hér á landi. Eina leiðin til að vinna gegn slíkum samfélagsmeinum er að banna þá starfsemi með öllu. Í það minnsta ætti ekki að styrkja hana með almannafé. Pólitísk átök munu fylgja því að uppræta skattaskjól því að hagsmunir þeirra sem nýta sér þau eru miklir og þau munu standa saman og segja að það hafi ekki upp á sig að banna skattaskjól og ekki megi setja girðingar vegna þess að sumar flétturnar séu löglegar. Þessa röksemd höfum við reyndar heyrt hér á landi, m.a. frá ráðamönnum.

Það er algerlega óásættanlegt að rétta þeim fjármuni úr ríkissjóði sem hafa ekki greitt sinn sanngjarna skerf til samfélagsins og hafa sett upp fléttur og flóknar millifærslur beinlínis til að komast hjá því. Á þessum erfiðu tímum, þegar glímt er við heimsfaraldur með tilheyrandi tekjufalli og efnahagserfiðleikum heimila, ríkissjóðs, fyrirtækja sveitarsjóða, kemur ekkert annað til greina en að setja um það skýr skilyrði í lögum.

Í nefndaráliti meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar er því haldið fram að nægilegt sé að gera þá kröfu að einstaklingar eða fyrirtæki sem njóta stuðnings úr ríkissjóði hafi fulla og ótakmarkaða skattskyldu hér á landi, að hver sá rekstraraðili sem ber ótakmarkaða skattskyldu hér á landi en flytur síðan tekjur úr landi til þess að forðast skattgreiðslur hér eða lætur hjá líða að gera grein fyrir tekjum sínum erlendis geri það í trássi við lög. Þarna gætir mikils misskilnings hjá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar og er beinlínis röng túlkun á tekjuskattslögum. Breytingartillögur meiri hluta nefndarinnar eru um að setja sem skilyrði það sem nú þegar er skylt að gera með lögum. Það er ekki þannig að með skilum á CFC-skýrslum hafi einstaklingur eða fyrirtæki sannað að um ótakmarkaða skattskyldu sé að ræða hér á landi, eins og skilja má af áliti meiri hluta nefndarinnar, og að þar með sé búið að útiloka þá sem nýta sér skattaskjól frá stuðningi ríkisins. Þessi skilningur meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar á tekjuskattslögunum stenst enga skoðun.

Það sem kallað er skilyrði í frumvarpinu og breytingartillögum meiri hlutans eru innihaldslaus málamyndaákvæði sem virðast vera sett fram til blekkingar. Í fyrsta lagi eru allir rekstraraðilar á Íslandi með fulla og ótakmarkaða skattskyldu hér á landi. Þetta atriði útilokar engan. Í öðru lagi er kveðið á um að umsækjandi um stuðning hafi skilað ársreikningi. Sú skylda er nú þegar í lögunum, bæði tekjuskattslögum og lögum um ársreikninga. Í þriðja lagi skal upplýsa um raunverulega eigendur. Sú skylda er þegar í lögum. Í fjórða lagi skal hann, ef við á, hafa skilað CFC-skýrslu. Sú skylda er þegar í lögum. Þetta sýnir að engin ný skilyrði eru sett fyrir stuðningi samkvæmt lögunum til þeirra sem nýta sér skattaskjól og breytingartillögurnar eingöngu til að slá ryki í augu þingmanna og almennings. Allir sem hafa aflað sér tekna hér á landi eru með fulla og ótakmarkaða skattskyldu hér. Ekkert fyrirtæki er þar undanskilið. Það útilokar ekki skattundanskot eða skattsniðgöngu með aðstoð aflandssvæða.

Indriði H. Þorláksson, fyrrverandi ríkisskattstjóri, lýsir þessu vel í pistli á heimasíðu sinni undir yfirskriftinni „Veira í skattaskjólum“. Þar segir hann, með leyfi forseta:

„Skattundanskot og skattsniðganga með aðstoð aflandssvæða felst í því að skattaðili með „fulla og ótakmarkaða skattskyldu“ hér á landi flytur tekjur sem hér er aflað til félags utan skattalögsögu Íslands, oftast skúffufyrirtækis á lágskattasvæði. „Full og ótakmörkuð skattskylda“ kemur ekki í veg fyrir það. Hún er þvert á móti nauðsynleg forsenda því annars er ekki um neinar tekjur að ræða. Þessar ráðstafanir sem slíkar eru yfirleitt ekki ólöglegar en þær kunna að fela í sér að með þeim sé verið að sniðganga skattalögin, að láta líta svo út að tekjur íslenska rekstraraðilans séu tekjur einhvers annars.“

Indriði bendir á að skattsniðgangan geti farið fram með ýmsum hætti, svo sem þannig að íslenskt rekstrarfélag stofni félag á aflandssvæði eða lágskattasvæði sem tekur á móti greiðslum frá íslenska félaginu. Þetta getur verið arður af hlutafé, vextir af lánum og þóknanir ýmiss konar. Einnig geta slík félög verið milliliður í falskri milliverðlagningu, selt íslensku félagi vörur á háu verði eða keypt vörur af því á lágu verði. Erlendu félögin eru tengd íslenska félaginu í gegnum eignarhald og tekjur sem sæta ættu skattlagningu hér á landi eru færðar út fyrir landsteinana. CFC-reglurnar koma ekki í veg fyrir að erlendur aðili eigi rekstrarfélag hér og aflandsfélag í skattaskjóli sem hann flytur hagnaðinn í án þess greiða af þeim fjármunum skatt til íslensks samfélags. Þær reglur ná ekki til Íslendings sem býr í London, stofnar félag á Tortóla og það félag á fyrirtæki á Íslandi. Íslendingurinn í London fær tekjur sem aflað er hér á landi fluttar til sín í gegnum aflandsfélagið án þess að greiða skatta hér á landi.

Niðurstaða fyrrverandi ríkisskattstjóra er skýr. Hann segir, með leyfi forseta:

„Tilvísun í „fulla og ótakmarkaða skattskyldu“ sem vörn gegn því að aðili sem notar skattaskjól í starfsemi sinni eða er liður í slíkri starfsemi er marklaus og breytir engu.“

Forseti. Sú sem hér stendur, fulltrúi Samfylkingarinnar í nefndinni, vill undirskilja frá stuðningi ríkisins alla þá sem eru með tengsl við lágskattaríki og leggur því til breytingu á gildissviði frumvarpsins, samanber 1. gr. þess. Ég legg til að inn í 1. gr. komi þessi málsgrein hér:

„Lögin gilda ekki um einstaklinga eða lögaðila sem hafa með höndum, beint eða óbeint, eignarhald eða stjórnun í hvers kyns félagi, sjóði eða stofnun sem telst heimilisföst í lágskattaríki, samanber 57. gr. a laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, né um lögaðila í beinu eða óbeinu eignarhaldi eða undir stjórn hvers kyns félags, sjóðs eða stofnunar sem telst heimilisföst í lágskattaríki.“

Forseti. Í dönsku lögunum sem samþykkt hafa verið nýlega þar í landi vegna Covid-19 um hliðstætt mál er tekið fram að þeir einstaklingar eða fyrirtæki sem brjóta í starfsemi sinni gegn viðmiðum sem Evrópusambandið hefur sett sér til að koma í veg fyrir skattaskjól fái ekki stuðning stjórnvalda. Einnig hafa Danir fjórfaldað refsingar ef upp kemst um þá sem reyna að svindla út ríkisaðstoð sem veitt er vegna heimsfaraldursins. Til að sýna að þeim sé alvara hafa þeir fjölgað starfsmönnum við skattrannsóknir og eftirlit um 250. Ef við ættum að herma eftir Dönum hvað þetta varðar og fjölga starfsmönnum í eftirliti og skattrannsóknum ættum við miðað við höfðatölu að bæta við 15 starfsmönnum hjá skattinum og skattrannsóknarstjóra. Danir sýna í verki að þeir vilja ekki styðja þá sem nýta sér skattaskjól vegna þess að skattaskjólsfléttur þjóna engum öðrum tilgangi en þeim að komast undan því að greiða til samfélagsins. En hvað viljum við? Viljum við styðja þá starfsemi sem nýtir sér leiðir til að sniðganga samfélagið með slíkum hætti? Svar okkar jafnaðarmanna er: Nei, það eigum við alls ekki að gera. En til þess að koma í veg fyrir slíkt verður að setja skýr skilyrði um það í lögum og það verður gert með samþykkt breytingartillögu Samfylkingarinnar við frumvarpið sem við ræðum nú og þeirra annarra sem koma munu til meðferðar þingsins vegna efnahagsáhrifa heimsfaraldursins.

Forseti. Nú hef ég farið yfir nefndarálitið og breytingartillögu Samfylkingarinnar til að reyna að koma í veg fyrir að þeir sem nýta sér skattaskjól fái ríkisstuðning í gegnum neyð þegar heimsfaraldur gengur yfir. Þá vil ég í lok ræðu minnar benda á mikilvægi þess að nú þegar nokkrir stórir pakkar hafa komið frá ríkisstjórninni, nú þegar hæstv. ráðherra tala um að halli ríkissjóðs gæti verið 250–300 milljarðar á árinu 2020, þá verðum við í þinginu að staldra við og reyna að meta áhrif allra þessara aðgerða. Við verðum að meta saman hlutabótaleið, frestun á greiðslum, lokunarstyrki, stuðningslán, brúarlán og skattbreytingar, hvernig skattauppgjörið er, eins og við vorum að afgreiða í síðustu viku.

Það er nauðsynlegt fyrir okkur sem hér erum með fjárveitingavaldið og eigum að setja lög og samþykkja og rýna þessar aðgerðir allar að fá sérfræðimat á því hvernig þessar aðgerðir virka saman, til hvers þær muni líklega leiða og reyna að draga það fram hvort þær nái þeim árangri sem við ætlumst til. Við höfum ekki þá yfirsýn í dag og ég fullyrði, forseti, að ég er ekki bara að tala fyrir minni hlutann í þeim efnum. Ég hef grun um að hv. þingmenn meiri hlutans séu einmitt á sama stað og við þurfum á því að halda að fá betri yfirsýn og mat sérfræðinga á því hvernig þessar aðgerðir allar spila saman og hver áhrif þeirra eru.