150. löggjafarþing — 102. fundur,  12. maí 2020.

fjárstuðningur til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

725. mál
[15:28]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Óli Björn Kárason) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir ræðuna. Það kemur svo sem ekkert á óvart að við erum ekki sammála í öllu. Ég ætla hins vegar að þakka hv. þingmanni kærlega fyrir samstarfið og þótt hv. þingmaður hafi ekki skrifað undir meirihlutaálitið þá er ég ekki að upplýsa um neitt leyndarmál þegar ég segi að hv. þingmaður setti engu að síður mark sitt á niðurstöðu málsins í meiri hlutanum. Þannig tókst okkur að minnsta kosti að vinna saman.

Hér liggur hins vegar fyrir breytingartillaga sem ég hef verulega miklar áhyggjur af frá hv. þingmanni sem byggir á því að undanskilja öll félög þar sem 57. gr. a tekjuskattslaganna á við. Hverjir eru það? Jú, það eru skattaðilar sem beint eða óbeint eiga hlut í hvers kyns félagi, sjóði eða stofnun sem telst heimilisföst í lágskattaríki en skulu greiða tekjuskatt af hagnaði slíkra félaga í hlutfalli við eignarhlut sinn án tillits til úthlutunar. Svo ég vitni beint í þessa grein, með leyfi forseta:

„Tekjur þessar eru skattskyldar með sambærilegum hætti og um væri að ræða starfsemi hér á landi.“

Ég velti því fyrir mér hvort hv. þingmaður sé þá í alvöru að leggja til að útiloka mörg íslensk fyrirtæki, sem fara eftir íslenskum og fara eftir 57. gr. a tekjuskattslaganna, að leggja til að þau séu bara tekin út fyrir sviga og njóti ekki sömu réttinda samkvæmt því frumvarpi að lögum sem við erum að setja. Hefur hv. þingmaður þá ekki áhyggjur af jafnræðisreglunni sem við reynum að fylgja?