150. löggjafarþing — 102. fundur,  12. maí 2020.

fjárstuðningur til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

725. mál
[15:35]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Almennt er ég ekki hætt að hafa áhyggjur af jafnræðisreglunni en í þessu tilfelli hef ég engar áhyggjur. Ég misskil ekki neitt. Það gerir hins vegar hv. þingmaður, formaður efnahags- og viðskiptanefndar, hann misskilur tekjuskattslögin. Ég heyrði ekki betur í ræðu hans áðan en að hann hafi sagt að búið væri með skilyrðum að girða fyrir að þeir sem nýta sér skattaskjól og aflandssvæði, aflandsfélög, fengju notið þess sem frumvarpið boðar. Hann segir að það sé tryggt með því að tala um að félögin hafi fulla og ótakmarkaða skattskyldu hér á landi. Það er ekki þannig að það sé nokkurt einasta fyrirtæki eða einstaklingur útilokaður frá því. Það er bara stórkostlegur misskilningur á tekjuskattslögum.

Það er heldur ekkert nýtt í skilyrðunum fyrir lánunum sem taka á þeirri starfsemi að menn geti sett upp slíkar fléttur og flóknar millifærslur sérstaklega til að svíkja undan skatti. Það er ekki neitt slíkt í skilyrðunum í breytingartillögum meiri hluta nefndarinnar. Þess vegna sá ég mig knúna til þess að leggja fram þetta nefndarálit og þessar breytingartillögur, því að auðvitað munum við ekki geta samþykkt að við séum að greiða og styrkja slíka starfsemi með almannafé. Sérreglur sem nefndar eru í nefndaráliti og breytingartillögum meiri hlutans gilda fyrir íslenskan aðila sem setur upp fléttu, þær gilda t.d. ekki fyrir aðila sem býr í London, setur upp félag á Tortóla sem rekur svo starfsemi hér á landi. Hvernig ætlar hv. þingmaður að koma í veg fyrir að almannamannafé streymi í vasa slíkra aðila?