150. löggjafarþing — 102. fundur,  12. maí 2020.

fjárstuðningur til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

725. mál
[15:40]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Eins og staðan er núna hjá okkur finnst mér augljóst að við ættum að kalla til fjármálaráð sem hefur ákveðið hlutverk í lögum um opinber fjármál, og hreinlega óska eftir mati frá því þó að ekki sé skrifað inn í lögin að við svona aðstæður eigi það að gerast. Þar eru sérfræðingar sem meta fjármálastefnu einu sinni á kjörtímabili. Að vísu er nú ný stefna á hverju ári hjá þessari ríkisstjórn en það kemur ekki til af góðu. Fjármálaráð á einnig að meta fjármálaáætlunina.

Ég held að vinna fjármálaráðs hafi kennt okkur ýmislegt um ríkisfjármál. Umfjöllun þess og úttekt á stefnum og áætlunum hefur sett hlutina svolítið í samhengi fyrir okkur og hjálpað okkur að skoða stóru myndina. Það er einmitt þannig aðstoð eða þannig greining sem við þurfum á að halda núna af því að við erum í auga stormsins og við vitum ekki neitt þó að við vonum að allt fari á besta veg. Þó að við vonum að faraldurinn sé genginn yfir hér á landi, a.m.k. í bili, þurfum við ekki annað en að horfa bara til nágrannalandanna þar sem veiran er að ná sér aftur á strik. Það sem gerist í löndunum í kringum okkur hefur auðvitað áhrif á okkur og við vitum að við getum ekki haldið svona áfram endalaust. Við verðum einhvern veginn að staldra við og meta stöðuna. Ég hef áður sagt það í þessum ræðustól að við höfum verið svo gæfusöm að eiga þríeykið sem hefur talað við okkur á hverjum degi í margar vikur, almannavarnir, sóttvarnalæknir og (Forseti hringir.) landlæknir. Við þurfum líka faglega greiningu á efnahagssviðinu.