150. löggjafarþing — 102. fundur,  12. maí 2020.

fjárstuðningur til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

725. mál
[15:45]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil taka undir með hv. þingmanni. Það er mikilvægt að nýta reynsluna úr bankahruninu. En við verðum á sama tíma að minna okkur á að þetta er ekki eins kreppa, hún er allt öðruvísi. Ef ég horfi t.d. á mitt svæði sem fór mjög illa út úr bankahruninu — það var nú aðallega vegna þess að við vorum svo skuldsett. Við vorum svo skuldsett eftir að búið var að keyra okkur í þrot að það ógnaði sjálfstæði þjóðarinnar. Ríkissjóður var svo skuldsettur að maður hafði áhyggjur af sjálfstæði þjóðarinnar þegar verst lét.

En einstaklingar voru það líka þannig að það var aðallega skuldsetning en það var auðvitað líka atvinnuleysi. Atvinnuleysi á Suðurnesjum, sem er landshlutinn þar sem atvinnuleysi var mest þá og er mest núna, fór mest í 15% í hruninu. Núna horfir fólk upp á 30% atvinnuleysi. Það er allt önnur staða. Við erum ekki eins skuldsett núna en þetta hefur veruleg áhrif á efnahaginn. Þetta hefur áhrif á stöðu heimilanna, barnanna, sveitarsjóðs og ríkissjóðs auðvitað líka. Þannig að þetta eru stærri tölur en öðruvísi kreppa. Við þurfum að finna út úr því saman hvernig við förum út úr þessu.

Eitt af því sem ég hef lagt til hér á Alþingi, og við í Samfylkingunni, er að við setjum af stað þjóðhagsstofnun sem heyrir undir Alþingi sem gæfi okkur skýrslu tvisvar á ári um stöðu efnahagsmála sem alþingismenn gætu leitað til og fengið mat á tillögum o.s.frv. Ef við hefðum slíka stofnun (Forseti hringir.) gæti hún líka þjónustað fjármálaráð í störfum þess (Forseti hringir.) og þá værum við betur sett í þessari stöðu. En hún er ekki þannig svo að við skulum horfa til framtíðar og reyna að koma henni á.