150. löggjafarþing — 102. fundur,  12. maí 2020.

fjárstuðningur til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

725. mál
[16:05]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Hér ræðum við mál sem fjallar um svokölluð stuðningslán og lokunarstyrki. Ég held að það sé ekki ofmælt að þetta séu langþráð úrræði sem beðið hefur verið eftir af óþreyju. Nefndin hefur fjallað ítarlega um þessi mál á mörgum fundum sínum og ég held að það sé við hæfi að hrósa samnefndarmönnum mínum fyrir góðar umræður og góðar tillögur. Margt af því hefur skilað sér inn í þetta frumvarp sem er til mikilla bóta. Það er óhætt að segja að frumvarpið muni taka miklum breytingum nái breytingartillögur fram að ganga.

Þannig háttar til að ég tók ákvörðun um að skrifa undir meiri hlutaálitið en geri það reyndar með fyrirvara. Kannski má segja að það sé ein meginástæða fyrir því að ég vel þessa leið. Ég tel að frumvarpið sé til mjög mikilla bóta, það hafi tekið miklum framförum. Það þýðir þó ekki að það sé gallalaust og þess vegna er ég með fyrirvara sem ég mun gera nánari grein fyrir hér á eftir. En hitt er kannski ekki síður að reynslan kennir manni smátt og smátt og það er nú einu sinni þannig að við afgreiðslu allra þessara mála er stjórnarandstöðunni hleypt svo og svo langt áfram. Hún getur stundum lagt gott til málanna og stundum er eitthvað aðeins hlustað á hana í meðförum þingmála ríkisstjórnarinnar en síðan er lína dregin í sandinn og sagt: Hingað og ekki lengra. Maður lærir að öllu því sem stjórnarandstaðan leggur til, fyrir utan það sem stjórnarflokkarnir hafa ákveðið sín á milli, verður ekki ansað og allt slíkt verður fellt. Kannski má segja að þetta sé svolítið uppgjafarlegt hjá mér og maður eigi kannski alltaf að trúa á kraftaverkin og að hlutirnir breytist, en svona er nú staðan.

Ég geri fyrirvara sem ég ætla að lesa hér upp, með leyfi forseta:

„Málið ásamt breytingartillögum meiri hluta nefndarinnar er góðra gjalda vert og vert er að styðja framgang þess. Þó er einkum tvennt sem ber að gera athugasemdir við. Annars vegar ættu lokunarstyrkir ekki að takmarkast við starfsmannafjölda heldur stöðugildi. Hins vegar ættu stuðningslán að vera tæk fyrir aðila með lægri rekstrartekjur en 9 millj. kr. Nánari grein verður gerð fyrir fyrirvaranum í ræðu.“ — Og nú er ég sem sagt að því.

Ég sé reyndar að félagar mínir í stjórnarandstöðunni hafa lagt fram breytingartillögur sem ég mun aðeins koma að hér á eftir, en sumar hverjar varða akkúrat það tvennt sem ég nefni hér. Ég held að það sé galli varðandi lokunarstyrkina að miða eingöngu við starfsmannafjöldann. Ég veit að vissar tæknilegar ástæður eru fyrir því að það er kannski auðveldara fyrir yfirvöld að fylgjast með starfsmannafjölda frekar en að fylgjast með stöðugildum en þetta getur leitt til mjög óréttlátrar niðurstöðu því að oft og tíðum, einmitt á þessum minni stöðum sem um er að ræða hér, skiptir máli að geta talað um stöðugildi því að oft er fólk í hlutastörfum einmitt á þessum stöðum, þannig að þetta leiðir ekki til nógu góðrar niðurstöðu. Þarna hefði svo sannarlega verið hægt að gera bragarbót á en ekki var fallist á að fara þá leið af meiri hluta nefndarinnar.

Hitt atriðið varðar stuðningslánin sjálf, sem ég held að skipti líka miklu máli. Ég tek það fram að sú grein tók náttúrlega einna mestum breytingum sem voru mjög jákvæðar og ég vil ekki draga fjöður yfir það að ég er mjög ánægður með þær breytingar og held að þar hafi verið fundin ágætisleið til að víkka út gildissviðið og taka meira tillit til stærðar og umsvifa þeirra fyrirtækja sem þurfa á slíku stuðningsláni að halda. Ég held þó að við höfum kannski sett markið heldur hátt því að fjölmargar ábendingar hafa borist um að talsvert af starfsemi falli undir þessa viðmiðunartölu. Það hefði verið betra að hafa hana lægri en 9 milljónir, nákvæmlega hver hún hefði átt að vera er alltaf erfitt að segja til um en kannski hefði einhvers staðar á bilinu 5–6 milljónir verið betur við hæfi.

Eðlilega er mikil umræða, bæði hér í þinginu og í þingnefndum og ekki síður úti í samfélaginu, um forsendur þess að fyrirtæki geti notið stuðnings af þessu tagi og svo sem af öðru tagi líka. Allra síst viljum við að skattfé borgaranna sé kastað á glæ. Við viljum að peningarnir nýtist vel þeim sem við viljum styðja og að það séu raunverulegar ástæður, hlutlægar ástæður, fyrir því að menn geti sóst eftir þeim úrræðum sem um ræðir. Það getur verið vandratað meðalhófið í þessu, að finna út úr því hvernig hlutunum verður best fyrir komið. Það fyrsta sem við verðum að hafa í huga — ég held að það eigi almennt við og mér finnst við kannski ekki alveg hafa rætt það til fulls — er að við erum í þessum aðgerðum, a.m.k. í því sem snýr beint að fyrirtækjum, lögaðilum, bæði varðandi þetta frumvarp, brúarlán og annan stuðning, að aðstoða lögpersónur, lögaðila, og þetta er ríkisstuðningur, þetta er stuðningur ríkisins sem er veittur á tilteknum forsendum. Þá á enginn að velkjast í vafa um að slíkur stuðningur er opinber stuðningur og þá meina ég að það á að upplýsa um hann, það á að vera aðgengilegt hverjir njóta þessa stuðnings. Ef fyrirtæki sækjast eftir stuðningi á grundvelli tiltekinna forsendna getur það ekki verið eitthvert leyndarmál vegna viðskiptahagsmuna eða hvað það nú kann að vera af hálfu fyrirtækisins. Þess vegna held ég að það sé fyrsta grundvallarreglan að allt sé opinbert, allt sé aðgengilegt, allt sem menn fá í gegnum þessi kerfi því að gegnsæið er besta vörnin gegn því að illa sé farið með fé.

Menn hafa nefnt hér skattaskjól. Allt skjól er til þess fallið að það eru alltaf einhverjir sem skríða í það. Opinber umræða sem byggir á hörðum staðreyndum um það hverjir fengu hvað og vegna hvers er það sem við eigum að miða við. Ég segi þetta líka af því að menn eru að velta því fyrir sér hvort fyrirtæki njóti persónuverndar. Ég held að það sé mjög langsótt kenning, sérstaklega þegar þetta á við. Ég vil líka í þessu samhengi benda á nýlegan úrskurð nefndar sem úrskurðar um aðgang að opinberum upplýsingum og tengdist m.a. fyrirspurn á þinginu þar sem ég spurði um ríkisstuðning við bændur sem aldrei hefur mátt upplýsa um; hvaða bú fær hvað, það hefur aldrei mátt upplýsa það. Úrskurðurinn var á þann veg að um væri að ræða hagsmuni sem vörðuðu almenning, að vita í hvað slíkum ríkisstuðningi er varið og til hverra. Það hefur því birst í þingskjali ítarlegt yfirlit yfir alla þá aðila sem hafa fengið styrki af þessu tagi og fyrir hvað, mjög nákvæmlega sundurliðað. Ég get því ekki séð að þetta eigi að vera neitt vandamál.

Ég held að í sjálfu sér þurfi bara ákvörðun stjórnvalda til. Ég held að við þurfum ekki að breyta lögum eða gera nokkurn skapaðan hlut til að geta gert þetta, stjórnvöld ákveða þetta bara, svona er þetta og svona verður þetta. Ef menn eru eitthvað hræddir við það verða þeir bara af þeim stuðningi sem þeir sækjast eftir. Ég er stranglega þeirrar skoðunar að við eigum ekki að styrkja eða veita aðgang að ríkisfé aðilum sem sannarlega misnota eða geta með einhverjum hætti flutt slíkan ávinning í einhvers konar skjól. Skattaskjól er þeirrar gerðar að það sem í skjólinu er veit enginn um og það er akkúrat tilgangurinn að það veit enginn um það. Það liggur í augum uppi að fé sem á rætur sínar að rekja til Íslands og er í slíkum skjólum er að mínu mati illa fengið fé og er jafnslæmt í dag og í gær og á morgun. Vandinn verður örlítið meiri þegar við komum að svokölluðum lágskattalöndum, þar sem hægt er að staðsetja fyrirtæki og rekstur. Það þarf ekkert að draga fjöður yfir það. Menn gera það í því skyni að njóta skattalegs hagræðis og það er nú einu sinni þannig að mörg ríki sem standa okkur ekki svo fjarri beita skattalegu hagræði til að laða til sín fjárfestingar.

Við vorum að samþykkja umfangsmikil lög um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki. Það mætti segja að í því fælist á vissan hátt skattalegt hagræði, að við værum lágskattaríki í þeim skilningi. Við vitum að mörg nýsköpunarfyrirtæki okkar sækja í lönd þar sem stuðningur er mikill og hann er oft í formi skattalegs hagræðis og beinna ríkisstyrkja. Við höfum í sjálfu sér ekki gert athugasemdir við það. Að þessu öllu sögðu finnast mér þær hugmyndir, þær tillögur, sem hv. þm. Oddný G. Harðardóttir lagði hér fram allrar athygli verðar og það er þess virði að skoða þær mjög vel. Það kann vel að vera að þar sé að finna einhvers konar aðferð til að ná þessu markmiði. En ég hef ekki fulla sannfæringu fyrir því á þessu stigi málsins hvert umfang íslenskra fyrirtækja, sem hafa með einhverjum hætti komið sér fyrir í svokölluðum lágskattaríkjum, er. Hvað er þetta umfangsmikið og erum við endilega viss um að við viljum að öll þessi fyrirtæki verði kategórískt undanskilin þessari aðstoð? Ég veit það ekki. Ég veit það ekki vegna þess að ég veit ekki hvaða fyrirtæki þetta eru, hvert umfang þeirra er í íslensku samfélagi. Ég held að það sé ekki endilega heppileg afleiðing af því að setja strangar reglur, sem vissulega eru settar í mjög góðum tilgangi, sem ég styð í sjálfu sér, en við verðum að vita hvað við erum að tala um áður en við gerum það. Mér finnst ég ekki vita það og ég veit satt að segja ekki hvort aðrir vita það. Kannski eru þessar upplýsingar ekki svo fjarri. Það kann að vera að skattyfirvöld viti þetta, geti upplýst um umfangið þó að þau geti kannski ekki upplýst um einstök fyrirtæki sem reka með löglegum hætti starfsemi í svokölluðum lágskattalöndum.

Við erum aðallega að tala um fyrirtæki sem hafa orðið fyrir áfalli og þurfa á aðstoð að halda, og ég ítreka að ég er talsmaður þess að slík aðstoð sé veitt. Það er alveg ljóst að slíka aðstoð á ekki að misnota og það eigum við ekki að líða. Ég talaði áðan um að fyrirtæki væru lögpersónur en lögpersónunum stýrir fólk og þó að fyrirtæki hafi ekki samvisku hafa stjórnendur þeirra vonandi einhvern snefil af samvisku, þó að ég vilji ekki fullyrða að svo sé um þá alla. En það dugar skammt að höfða til samvisku þegar menn opna leiðir fyrir fyrirgreiðslu. Það er gömul saga og ný. Þetta er erfitt mál. Þið heyrið að ég tala örlítið í hringi, myndi einhverjum finnast. En það er bara vegna þess að málið er, finnst mér, ekki alveg jafn einfalt og virðist við fyrstu sýn. En þetta eigum við skoða mjög vel og það mun ég gera. Ég horfi bæði á tillögur Pírata, sem falla nokkuð vel að þeim athugasemdum sem ég gerði efnislega við smærri atriði í frumvarpinu, og eins tillögu frá hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur um að reyna að ná utan um að þetta verði ekki misnotað. Ég er ekki alveg sannfærður um að þetta sé besta leiðin en ég mun svo sannarlega skoða það gaumgæfilega og íhuga hvort þarna hafi fundist fær leið. En ég hef efasemdir um að svo sé.