150. löggjafarþing — 102. fundur,  12. maí 2020.

fjárstuðningur til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

725. mál
[16:36]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágætissvar. Ég skal taka undir það með honum að mjög skynsamlegt var að skilja að lokunarstyrkina og stuðningslánin þannig að lokunarstyrkirnir væru ekki að dragast frá stuðningslánunum. Það var mjög skynsamleg leið og ánægjulegt að heyra að margt hefur náðst í gegn af góðum hugmyndum í starfi nefndarinnar. Ég fagna því sérstaklega.

Mig langaði aðeins að koma inn á fyrirtæki í ferðaþjónustu. Nú veltir maður fyrir sér hvort hugsanlega ætti að koma til þess að heimila þeim að frysta lán, hvort það gæti ekki verið leið til þess að hjálpa þeim yfir erfiðasta hjallann, t.d. með því að ríkið myndi semja við lánastofnanir um vaxtakostnað vegna aðgerðanna og því verði síðan kannski skipt til helminga milli ríkissjóðs og banka. Þetta eru tillögur sem við í Miðflokknum höfum lagt áherslu á vegna þess að það eru fleiri þættir sem varða þessi fyrirtæki sérstaklega. Þetta eru þau fyrirtæki sem hafa orðið langverst úti í veirufaraldrinum. Ég vil líka nefna fasteignagjöldin sem geta verið mjög íþyngjandi fyrir fyrirtæki sem hafa enga innkomu. Sæi hv. þingmaður fyrir sér eitthvað með þeim hætti, að hægt yrði að frysta greiðslu fasteignagjalda af húsnæði ferðaþjónustufyrirtækja? Auðvitað þarf þá ríkissjóður að koma inn í það, sveitarfélögin munu ekki koma til með að ráða við það. En þetta eru tveir þættir sem ég vildi fá hv. þingmann til að koma inn á, þessi innlendu lán ferðaþjónustufyrirtækjanna og síðan fasteignagjöldin.