150. löggjafarþing — 102. fundur,  12. maí 2020.

fjárstuðningur til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

725. mál
[16:39]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Þingmaðurinn kom inn á þetta með frystingu lána eða frestun greiðslna af lánum. Það er náttúrlega svo að mörg fjármálafyrirtækin hafa þegar boðið þennan valkost, en ég skil hv. þingmann þannig að hann sé að velta því fyrir sér hvort ríkið ætti að hafa beina aðkomu að því. Hingað til hefur ekki verið litið á það svo, kannski í og með vegna þess að við erum náttúrlega enn þá svolítið í vangaveltum með það hvað þetta mun verða langur tími. Mun mesta niðursveiflan vara í örfá misseri eða mun hún vara í einhver ár? Ég held að enn séum við flest að vona að hún verði fyrst og fremst í nokkur misseri og þá tel ég að það svigrúm sem fjármálafyrirtækjum hefur verið skapað með ýmsum aðgerðum þar sem stjórnvöld hafa hjálpað þeim að losa um fé ætti að duga a.m.k. til skamms tíma. Hitt væri þá frekar eitthvað til þess að skoða til lengri tíma litið ef kreppan yrði mjög langvinn.

Á hinn bóginn með fasteignagjöldin þá erum við þegar búin að stíga skref til að heimila sveitarfélögunum að fresta greiðslu fasteignagjalda. Ég tel ekki, alla vega ekki á þessu stigi málsins, að við ættum að stíga inn í það hreinlega að segja sveitarfélögunum að fella gjaldið niður. Núna er þetta heimildarákvæði, að þau geti frestað gjöldum, en það yrði, eins og þingmaðurinn áttar sig á, gríðarlega íþyngjandi fyrir sveitarfélögin að stíga það skref og yrði aldrei gert öðruvísi en að undangengnu miklu samráði við sveitarfélögin. Akkúrat eins og staðan er núna sé ég ekki fyrir mér að sveitarfélögin væru til í það samtal.