150. löggjafarþing — 102. fundur,  12. maí 2020.

fjárstuðningur til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

725. mál
[16:41]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Frumvarp það sem við ræðum hér er hluti af þeim aðgerðum sem ríkisstjórnin hefur lagt fram í mótvægisaðgerðum eða úrræðum stjórnvalda í tengslum við það áfall sem efnahagslífið hefur orðið fyrir vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar eins og við þekkjum.

Ég vil geta þess í upphafi að ég fagna því sérstaklega að meiri hluti nefndarinnar er kominn fram með breytingartillögur sem skipta miklu máli. Það er ánægjulegt að sjá það sem ég nefndi áðan í andsvari, að góð samstaða hefur ríkt innan nefndarinnar og tillit verið tekið til ýmissa athugasemda sem þar hafa komið fram. Það er mjög gott í þessari vinnu sem við erum hér öll saman í. Því miður hefur ekki farið nógu mikið fyrir því að ríkisstjórnarflokkarnir hafi tekið til greina þær hugmyndir sem við höfum lagt fram í stjórnarandstöðunni. Ég nefni sérstaklega að Miðflokkurinn hefur lagt fram breytingartillögur og við höfum auglýst þær í fjölmiðlum til að ná athygli stjórnvalda. Við höfum meira að segja sent forsætisráðherra tölvupóst eins og óskað var eftir um tillögur. Því miður hefur ekki verið hlustað á þær sem er dapurlegt. Þær hafa allar verið felldar en svo hafa sumar þeirra ratað til okkar sem tillögur stjórnarliða og það er þá ágætt, samt hægt að brosa út í annað hvað það varðar að ekki virðist vera sama hvaðan tillögurnar koma.

Það er ljóst að náðst hafa fram góðar breytingar í störfum nefndarinnar hvað þetta mál varðar.

Miðflokkurinn styður þetta mál eins og öll önnur mál ríkisstjórnarinnar sem lúta að því markmiði að lágmarka það tjón sem við stöndum frammi fyrir vegna veirufaraldursins. Við fluttum þær breytingartillögur sem ég var að gera grein fyrir vegna þess að við teljum að margar þeirra tillagna sem ríkisstjórnin hefur lagt fram gangi ekki nógu langt. Gallinn við tillögur ríkisstjórnarinnar er svolítið að þetta eru smáskammtar sem gagnast ekki nægjanlega vel að því leytinu til að dýrmætur tími tapast sem hefði verið hægt að nýta eða sem hefði komið að góðum notum fyrir fyrirtækin ef þessar leiðir hefðu verið farnar fyrr. Ég man að hæstv. fjármálaráðherra sagði að það væri betra að gera meira en minna í þessum efnum. Þess vegna höfum við í Miðflokknum lagt áherslu á að aðgerðir séu almennar og stórar í þeim fordæmalausu aðstæðum sem við erum í. Ég vil endilega hvetja stjórnarliða til að hugsa þetta svolítið með það að leiðarljósi að stundum er ekki gott að vera með smáskammta vegna þess að þá missum við af ákveðnum tækifærum sem hefði verið hægt að nýta betur þegar kemur að því að þessi fyrirtæki nái sér á strik þegar ferðamenn fara að koma hingað aftur og efnahagslífið að ná sér á strik sem vonandi verður innan ekki svo langs tíma.

Tillögur frumvarpsins miða m.a. að tryggja atvinnurekendum súrefni til að komast í gegnum þær krefjandi efnahagsaðstæður sem við öll stöndum frammi fyrir. Mörg fyrirtæki, þá sérstaklega þau sem eru í ferðaþjónustu, hafa orðið fyrir algjöru tekjutapi og tekjuhruni enda engar tekjur að hafa af ferðamönnum. Þau þurfa hins vegar að standa straum af ýmsum fastakostnaði og þar kreppir skórinn. Þann kostnað verður að lækka. Þessi fyrirtæki verða að komast í skjól, annars er hætta á fjöldagjaldþrotum og það mun hafa mjög slæmar afleiðingar fyrir greinina vegna þess að hún verður að vera tilbúin að fara af stað um leið og ferðatakmörkununum verður aflétt. Með því nær efnahagslífið sér fyrr á strik. Það er líka mjög mikilvægt að aðgerðir ríkisstjórnarinnar séu skýrar og þjóni tilætluðum árangri.

Það er jákvætt að veita eigi minni fyrirtækjum lokunarstyrki og stuðningslán. Miðflokkurinn telur hins vegar að umfang lokunarstyrkjanna sé ekki nægilegt, skynsamlegra sé að hækka fjárhæðarhámarkið. Hvað lokunarstyrkina varðar miðast þeir við fyrirtæki sem þurftu að sæta lokun af hálfu heilbrigðisyfirvalda og var birt í sérstakri auglýsingu um hvaða fyrirtæki væri að ræða eða á hvaða sviði þau störfuðu. Það virðist vera nokkuð niðurnjörvað hvaða fyrirtæki geta sótt um þessa lokunarstyrki. Við í Miðflokknum höfum talað fyrir því að útvíkka þessa leið. Samtök ferðaþjónustunnar hafa einnig lagt áherslu á það og ég hef komið inn á það í andsvari við hv. formann nefndarinnar og fleiri þingmenn.

Ég tel eðlilegt að veitingastaðir eigi að falla undir þetta ákvæði vegna þess að margir þeirra þurftu einfaldlega að loka, sérstaklega á landsbyggðinni. Við sjáum líka í miðborg Reykjavíkur að margir veitingastaðir eru hreinlega lokaðir og rekstrarforsendur þeirra algjörlega brostnar. Takmarkanir á samkomum og öðru slíku gerðu það líka að verkum að við, Íslendingar sem erum hér, höfum ekki einu sinni haft tök á að fara á veitingastaði. Takmarkanirnar hafa verið umtalsverðar og þess vegna var ekki hægt að standa á því að fyrirtækjaeigendur myndu hafa sín fyrirtæki opin eins og í veitingarekstrinum. Auðvitað hafa þessar auglýsingar haft áhrif. Margir veitingastaðir reyndu að hafa opið en það hefur gengið misvel. Niðurstaðan er því sú að veitingahús hafa misst mjög stóran hluta viðskipta sinna. Margir viðskiptavinirnir voru erlendir ferðamenn og þeim var mörgum hverjum gert ómögulegt að vera starfandi eftir auglýsingar um sóttkví og annað slíkt. Engum veitingastöðum sem gekk bærilega verður hvort eð er veittur styrkur samkvæmt 2. tölulið 4. gr. frumvarpsins þannig að það kemur í raun og veru sjálfkrafa í veg fyrir það.

Þess vegna er mjög nauðsynlegt að skoða útvíkkun á þessum lokunarstyrkjum. Við erum þeirrar skoðunar að undir lokunarstyrki ættu að falla fleiri tegundir af starfsemi en áhætta ríkisins er lítil, enda munu fyrrgreind skilyrði um 75% lægri tekjur koma í veg fyrir að þetta ákvæði verði í raun og veru misnotað. Því miður hafa þær aðgerðir sem ætlaðar eru til stuðnings fyrirtækjum í ferðaþjónustunni komið of hægt. Ég held að margir séu á þeirri skoðun. Það er kannski gallinn við þær tillögur sem hafa verið lagðar fram, aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar o.fl., að hnökrar hafa verið í framkvæmdinni. Við sjáum t.d. brúarlánin sem loksins eru að koma til framkvæmda hér og nú. Það er u.þ.b. mánuður síðan lagt var upp með þetta úrræði. Það verður að reyna að sjá til þess að framkvæmd þessarar aðgerðar gangi sem allra best og hraðast fyrir sig, annast missir þetta marks og við töpum dýrmætum tíma. Þess vegna vonast ég til þess að hvað stuðningslánin varðar verði á hreinu að það muni ganga mun hraðar fyrir sig en t.d. með brúarlánin. Hv. formaður nefndarinnar, Óli Björn Kárason, gat þess að hann vonaðist til þess að nú væri búið að sníða hnökra af þannig að þessi lánafyrirgreiðsla, stuðningslánin, ætti að ganga hraðar fyrir sig. Ég vona svo sannarlega að svo verði.

Hvað bankana varðar sóttu mörg fyrirtæki strax í mars um frystingu á lánum og eru rétt núna að fá samþykki fyrir þeim, ég hef heimildir fyrir því, þannig að bankarnir hafa haldið þétt að sér höndum á meðan þeir bíða eftir því að ríkisábyrgðin gangi eftir. Auðvitað hefur þetta verið bagalegt fyrir þau fyrirtæki.

Jafnframt er einkennilegt að það hefur skort á sértækar aðgerðir ætlaðar ferðaþjónustuaðilum sem öðrum fremur fara illa út úr þessu. Þegar kemur t.d. að lokunarstyrkjunum, ef ég vík aftur að þeim, geta fyrirtæki sem voru skikkuð í lokanir samkvæmt auglýsingu, eins og hárgreiðslustofur og snyrtistofur, núna sótt um þessa styrki. Það er hið besta mál. Núna eru þessi fyrirtæki að koma aftur inn með starfsemi sína af fullum krafti sem er að sjálfsögðu mjög ánægjulegt. Þau er sem sagt farin að opna að nýju en það getur t.d. ferðaþjónustan ekki sem er rökstuðningur fyrir því að útvíkka það úrræði sem lokunarstyrkirnir eru.

Ég vík nú aðeins að stuðningslánunum. Þau eru mikilvæg aðgerð eins og ég nefndi og við í Miðflokknum styðjum hana. Við höfum talað fyrir því og talið nauðsynlegt að hækka viðmiðunarmörk tekna úr 500 milljónum í allt að 1 milljarð. Nú er komin breytingartillaga um að hækka mörkin í 1,2 milljarða sem ég fagna mjög. Það sýnir að nefndin hefur hlustað á ýmis sjónarmið og tekið þau alvarlega. Það er fagnaðarefni. Við þekkjum og vitum að markmiðið er að viðhalda atvinnustiginu og efnahagsumsvifum með því að styðja við minni rekstraraðila sem hafa orðið fyrir tímabundnu tekjufalli.

Í 10. gr. frumvarpsins eru tilgreind átta skilyrði fyrir því að ríkissjóður geti ábyrgst stuðningslánin. Það er nauðsynlegt að hafa skilyrði, það er alveg ljóst, og séu þau ekki til staðar er viðbúið að úrræðið verði misnotað. Við höfum séð það gerast, eins og ég nefndi áðan, og að einhverju leyti má kannski skrifa það á það, eins og með hlutabótaleiðina, að mikil þörf var fyrir að flýta því að koma þessu úrræði sem fyrst út. Þá hafa menn kannski séð að það hefði mátt undirbúa það aðeins betur og sérstaklega hvað varðar skilyrði til að hægt sé að koma í veg fyrir misnotkun. Það er ákaflega dapurlegt hvernig sum fyrirtæki hafa misnotað þá leið. Það skrifast fyrst og fremst á stjórnendur þeirra fyrirtækja sem nýttu sér þessa leið án þess að þurfa þess. Það eru náttúrlega þeir sem verða fyrir orðsporsmissinum.

Að sjálfsögðu á að krefjast þess að þeir hinir sömu endurgreiði þessa upphæð, það er ósköp einfalt, og á að fylgja því fast eftir. Það er eðlilegt að skilyrði séu sett um lántöku og ábyrgð. Hins vegar tel ég gengið of langt í skilyrðum um ákveðna hegðun lántaka til framtíðar. Samtök ferðaþjónustunnar gerðu sérstaka athugasemd við þetta í umsögn sinni, nánar tiltekið 4. tölulið 10. gr. Þar eru sett skilyrði varðandi arðgreiðslur og greiðslur af lánum rekstraraðila til eigenda. Þau skilyrði munu endurspeglast í lánaskilmálum stuðningslána. Hins vegar getur það ekki verið í höndum lánveitenda að bera ábyrgð á því ef lántaki brýtur gegn þessu skilyrði með þeim hætti að ábyrgð ríkissjóðs falli niður.

Lánveitandi getur ekki haft eftirlit með rekstraraðilum á lánstímanum. Afleiðingar þessa skilyrðis verða þær að lánveitandi verður hikandi við að veita stuðningslánið. Það hægir á kerfinu og vinnur gegn markmiðum laganna um að viðhalda atvinnustigi og efnahagsumsvifum. Markmið lánanna er að vinna gegn lausafjárvanda og koma fjármagni í umferð og með því mega skilyrðin ekki vera letjandi fyrir lánveitendur. Þetta verður að vera úrræði sem minni fyrirtæki geta nýtt sér í raun. „Að öðrum kosti er betra heima setið en af stað farið,“ segir m.a. í umsögn Samtaka ferðaþjónustunnar.

Í 2. tölulið 10. gr. frumvarpsins er tekið á tekjuviðmiði rekstraraðila. Þar er miðað við að tekjur á rekstrarárinu 2019 hafi að lágmarki verið 9 millj. kr. og að hámarki 500 millj. kr. Með því nær stuðningslánið eingöngu yfir örfyrirtækin en ekki lítil fyrirtæki. Það er því nauðsynlegt að hækka þetta viðmið eins og ég nefndi hér fyrr og verður sú niðurstaða fagnaðarefni eins og ég nefndi.

Í 18. gr. er fjallað um samninga við Seðlabanka Íslands. Ráðherra er heimilt að semja við Seðlabanka Íslands um að annast umsýslu vegna ábyrgða ríkissjóðs á stuðningslánum, þar á meðal uppgjör ábyrgða. Seðlabanka Íslands er heimilt að semja við lánastofnanir um framkvæmd þeirra á stuðningslánum og samskipti þeirra við Seðlabankann, þar á meðal um uppgjör ábyrgða ríkissjóðs á lánunum og upplýsingagjöf lánastofnana til Seðlabankans.

Ég vil bara árétta það sem ég nefndi áðan, að það er mjög mikilvægt að þessir samningar gangi hratt og vel fyrir sig og að við verðum ekki í sömu sporum og með brúarlánin. Ég treysti því að hv. formaður efnahags- og viðskiptanefndar, Óli Björn Kárason, hafi haft lög að mæla þegar hann nefndi að við værum búin að vinna ákveðinn grunn í brúarlánum sem væri hægt að nýta. Ég vona svo sannarlega að fjármálastofnanirnar líti þannig á málin og að við þurfum ekki að horfa upp á það að þessi lánaframkvæmd sem er ákaflega mikilvæg verði ekki komin til framkvæmda fyrr en eftir rúman mánuð eða svo. Það er mjög dýrmætur tími sem við megum ekki lengja og missa þá af þeim tækifærum sem þessi fyrirtæki hafa til að reyna að fleyta sér áfram þar til einhverjar tekjur fara að koma inn.

Í 19. gr. er síðan fjallað um eftirlitið sem er að sjálfsögðu mjög mikilvægt. Það verður að vera svokallað samtímaeftirlit, þ.e. að stöðugt sé verið að fylgjast með þessu. Ríkisendurskoðun lagði áherslu á það þegar við funduðum með henni í fjárlaganefnd að það yrði samtímaeftirlit. Ríkisendurskoðun lagði einnig áherslu á að verði vikið frá þessum skilyrðum eigi ríkisábyrgðin að falla niður. Það þarf að vera tryggt og ég tek heils hugar undir það. Auk þess lagði Ríkisendurskoðun áherslu á það að þegar kemur að fjármálastofnunum sé málsmeðferð samræmd á milli stofnananna þannig að menn viti nákvæmlega að hverju þeir ganga og að þar sé enginn breytileiki hvað varðar fjármálastofnanir. Það er samt galli að í raun og veru er enginn samræmingaraðili. Hvort nefndin sem slík eigi að sjá um það kemur í raun og veru ekki fram. Þetta er galli sem þyrfti að skoða nákvæmlega.

Að lokum vil ég aðeins nefna það að við í Miðflokknum höfum lagt fram tillögur sem við teljum mikilvægar í þeim aðgerðum sem snúa að ferðaþjónustunni, að það séu almennar lausnir. Við höfum talað fyrir því að öll innlend lán ferðaþjónustunnar verði fryst til loka árs 2021, að aðgerðin nái til allra ferðaþjónustufyrirtækja sem hafa orðið fyrir verulegu tekjufalli vegna veirufaraldursins, að lánin verði fryst frá og með 1. júní nk. til 31. desember 2021 og að ríkið semji þá við lánastofnanir um að vaxtakostnaði vegna aðgerðanna verði skipt til helminga milli ríkissjóðs og banka. Við höfðum auk þess lagt áherslu á að greiðslur fasteignagjalda verði frystar í 24 mánuði vaxtalaust, að sveitarfélögin frysti þannig allar greiðslur fasteignagjalda af öllu húsnæði ferðaþjónustufyrirtækja til 24 mánaða og að endurgreiðslan verði síðan með 48 jöfnum afborgunum en sú fyrsta eftir 30 mánuði.

Hér eru viðbótaraðgerðir sem við teljum mjög mikilvægt að ráðast í. Ég hvet nefndina til að hlusta á og skoða þær tillögur. Það er greinilegt að það er góður samstarfsvilji innan nefndarinnar til að skoða hinar ýmsu hugmyndir sem það sýnir sig í þeim breytingartillögum sem hafa verið lagðar fram af hálfu meiri hlutans sem ég fagna sérstaklega. Að öðru leyti fagna ég (Forseti hringir.) að þetta mál sé að komast í höfn því að það er ákaflega mikilvægt.