150. löggjafarþing — 102. fundur,  12. maí 2020.

fjárstuðningur til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

725. mál
[17:01]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér fjárstuðning til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru eins og frumvarpið heitir. Segja má að þetta sé hluti af þeim tveimur málum sem við samþykktum í þinginu í gær, ýmsar breytingar á frekari aðgerðum til að mæta efnahagslegum afleiðingum og með auknum fjárheimildum í fjáraukalagafrumvarpi, m.a. 6. gr. heimild fyrir stuðningslánum sem er að finna í frumvarpinu sem við ræðum hér, og fjárheimild fyrir áætluðu umfangi lokunarstyrkja. Markmiðið er að styðja við minni rekstraraðila sem hafa orðið fyrir tímabundnu tekjufalli vegna faraldursins og aðgerða stjórnvalda í sóttvörnum. Slíkur stuðningur er til þess fallinn að verja atvinnu launþega, og við megum aldrei gleyma því, og viðhalda eftir mætti þeim umsvifum sem eru atvinnulífinu og hagkerfinu nauðsynleg. Með þetta að leiðarljósi met ég það svo að þær breytingar sem nefndin leggur til og eru í meirihlutaáliti nefndarinnar, og allir nefndarmenn, hygg ég, miðað við umræðurnar hér í dag, styðja, þótt það séu tvö ágæt minnihlutaálit sem varpa ljósi á aðra þætti, séu mikilvægar breytingar og til mikilla bóta enda rita ég undir álit meiri hluta.

Virðulegi forseti. Stuðningurinn sem finnst í frumvarpinu felst þá annars vegar í lokunarstyrkjum til rekstraraðila sem var gert að loka. Þar er dregin lína í sandinn og það skal sagt að fjölmargar ábendingar bárust frá aðilum sem ekki var formlega gert að loka en urðu fyrir verulegum tekjusamdrætti vegna þess að öðrum fyrirtækjum sem þeir eru háðir um viðskipti var gert að loka. Þá er aflétting takmarkana misjöfn eftir starfsemi og áréttar nefndin að það verði skoðað þegar fram líða stundir og það á eftir að koma í ljós. Mikilvægt er að þetta verði vaktað og eins telur nefndin ekki rétt að tengja saman eðlisólík úrræði og gerir breytingu á þar sem aðilar geta þá sótt um bæði lán og styrk án þess að styrkur skerði lán.

Hins vegar er um að ræða stuðningslán þar sem ríkissjóður ábyrgist að lánastofnun sem semur við Seðlabankann fái endurgreitt að fullu veitt lán og að því tilskildu að rekstraraðili uppfylli þau skilyrði sem sett eru í 10. gr. frumvarpsins. Það er mikilvægast að stuðningurinn, lánin og styrkirnir, skili tilætluðum árangri, eins og ég sagði, til að verja störf og viðhalda umsvifum. Ég tek því undir það, með öllum þeim sem hafa tekið til máls, í dag að þessar breytingartillögur til útvíkkunar á viðmiðunum lánanna, fjárhæðum og veltumörkum, eru til mikilla bóta með meginmarkmið frumvarpsins í huga. Í fyrsta aðgerðapakkanum gengum við frá svokölluðum brúarlánum, þar sem ábyrgð ríkissjóðs var allt að 70%, og því er hér lögð mikil áhersla á skilvirkni í framkvæmd og reynt að takmarka flækjustigið eins og unnt er, ég held að það sé jafnframt mikilvægt.

Vissulega auka þessar breytingartillögur nefndarinnar umfang aðgerðanna með breyttum veltu- og fjárhæðarmörkum. Það gefur augaleið þar sem fjárhæð 100% lána getur orðið allt að 10 milljörðum kr. og allt að 40 milljörðum kr. með 85% ábyrgð en það er í samræmi við meginmarkmiðin. Því getum við sagt að það sé til bóta en það minnir okkur á að auknu umfangi fylgir aukin áhætta og þetta eru jú eftir sem áður lán sem eiga að endurgreiðast.

Ég ætla ekki að fara neitt frekar yfir þessar breytingartillögur eða útfærslu á þeim eða skilyrðin á bak við. Það gerði formaður nefndarinnar, hv. þm. Óli Björn Kárason, afar vel. Ég vil, eins og aðrir sem hafa tekið til máls, róma það samstarf sem náðist í nefndinni og ekki síst fyrir framlag formannsins og viðleitni til að hlusta á allar góðar ábendingar. Það tókst sérlega vel í þetta skipti.

Hv. þm. Jón Steindór Valdimarsson kom inn á mikilvægi gagnsæis og ég hygg að í öllum þeim aðgerðum sem við höfum rætt hingað til höfum við lagt áherslu á þann þátt í öllum aðgerðum. Það ætla ég að fá að taka undir, virðulegi forseti. Hér hefur í tveimur minnihlutaálitum verið komið inn á skattaskjól og lágskattasvæði. Tillaga hv. þm. Oddnýjar G. Harðardóttur gengur út á að útiloka aðila sem eiga viðskipti á lágskattasvæðum. Það er erfitt að draga línu í sandinn þar. Ég held þó að við séum öll sammála í prinsippinu um að þeir aðilar sem sniðganga meðvitað og með opin augu skatta og skyldur hér á landi eins og lög kveða á um ættu ekki að sækja sér opinberan stuðning, en það er mjög erfitt að ætla að útiloka alla þá aðra sem eiga mögulega á ærlegum forsendum viðskipti á svæðum sem geta verið skilgreind lágskattasvæði. Ég held því að niðurstaða meiri hluta nefndarinnar sé góð, virðulegur forseti, og ég styð hana. Ég vil að lokum þakka samstarfið í nefndinni.