150. löggjafarþing — 102. fundur,  12. maí 2020.

vernd uppljóstrara.

362. mál
[17:18]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Við skoðuðum málið út frá skilgreiningunni sem frumvarpið hefur að geyma sem og nefndarálitinu þar sem við vorum búin að gera ákveðnar breytingar eins og ég geri ráð fyrir að hv. þingmaður hafi lesið sér til um. Í rauninni var eini ágreiningur innan nefndarinnar sá að einn nefndarmaður hélt því til haga að hann vildi bara taka út þessi tvö orð, góða trú, hafði ekki aðrar athugasemdir í sjálfu sér við skilgreininguna á þessu eða annað slíkt. Við fórum yfir þetta með Amnesty, við fórum yfir þetta með ráðuneytinu og vorum búin fara mjög ítarlega og vel ofan í málið í öllu þessu ferli þannig að ég deili ekki þeirri sýn hv. þingmanns um að þetta skarist eða að hér sé verið að þrengja hugtakið af því að þetta er jú það sem málið felur í sér: Ef við þurfum að uppljóstra þá höfum við góða ástæðu til að telja að gögnin séu rétt, að upplýsingarnar sem við höfum séu réttar, það er tekið hér fram, og það sé í þágu almennings að miðla þeim og við eigum ekki annan kost til að vernda almenning varðandi þau brot sem við teljum að sé hér um að ræða. Þannig að ég átta mig ekki alveg á því að hv. þingmaður telji að þetta þrengi hugtakið miðað við það sem nú er og hitt sé fullfrjálslegt.