150. löggjafarþing — 102. fundur,  12. maí 2020.

vernd uppljóstrara.

362. mál
[17:20]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það sem ég á við með því að það sé verið að þrengja er að hér er verið að vísa til þess að viðkomandi þurfi að telja að það sé í þágu almennings að miðla ákveðnum upplýsingum. Í fyrsta lagi erum við farin að meta núna hug uppljóstrara gagnvart þeim uppljóstrunum sem eiga sér stað, sem er ekki markmið þessara laga. Markmið laganna er að koma upplýsingum sem eiga heima hjá almenningi upp á yfirborðið. Það er hlutverk fjölmiðla að meta hvort upplýsingarnar eigi erindi. Það er hlutverk þeirra innri eftirlitsaðila sem uppljóstrarinn leitar til að meta hvort upplýsingarnar eigi rétt á sér. Það er hlutverk ytri uppljóstrunaraðila að meta það. Það að fara að setja rýni á það hver hugur uppljóstrarans er undirbýr bara jarðveginn fyrir það að þetta fari allt að snúast um hvaða forsendur uppljóstrarinn hafði fyrir því að uppljóstra, hver hugur hans var á bak við það.

Þetta er akkúrat það sem við Píratar höfum lagt áherslu á að sé áhyggjuefni. Þegar verið er að setja ásetning uppljóstrarans í forgrunn virkar sú taktík sem hefur sífellt verið notuð þegar fólk stígur það stóra og mikilvæga skref að gerast uppljóstrari, allur fókusinn fer á uppljóstrarann sjálfan og hvers konar manneskja hann sé og hvaða hugur liggi að baki uppljóstruninni hjá honum. Hér er verið að setja þrjú skilyrði um ásetning uppljóstrarans: Í fyrsta lagi að hann hafi góða ástæðu til að telja að gögnin eða upplýsingarnar sem hann miðlar séu réttar, sem mér finnst sjálfsögð og eðlileg krafa. Það hefði líka verið einfalt að setja ákvæði í lögin þar sem segði bara að þessi vernd ætti ekki við um einstaklinga sem vísvitandi miðla röngum upplýsingum. Þá væri það þar með afgreitt. En nei, til viðbótar vilja nefndarmenn setja þá kröfu að uppljóstrari meti hvort upplýsingarnar eigi erindi til almennings og hvort hann viti hvaða leiðir hann hafi til að koma í veg fyrir þau brot eða þá háttsemi sem um ræðir. (Forseti hringir.) Ef við skoðum 2. gr. þá virkar það ekkert rosalega vel því hvernig á hann að koma í veg fyrir þau brot eða þá háttsemi sem um ræðir áður en hann fer í innri uppljóstrun?