150. löggjafarþing — 102. fundur,  12. maí 2020.

dómstólar o.fl.

470. mál
[17:50]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að hv. þingmaður hafi misskilið mig og nefndarálitið, kannski vegna þess að ég var ekki nægilega skýr með þetta. Það er þannig að almenn skilyrði gjafsóknar geta komið til skoðunar, þ.e. vegna lágra tekna eða eitthvað þess háttar. Ég held að sjónarmiðið hafi fyrst og fremst verið að ekki væri möguleiki að setja inn í frumvarpið sérstaka heimild, almenna heimild, vegna gjafsóknar í þessu tilviki. En nefndin getur að sjálfsögðu skoðað nánar hvernig þetta kemur út, bara þannig að sameiginlegur skilningur ríki hvað það varðar. Ég skil það svo að það hljóti að vera þannig að sú almenna regla gildi að menn þurfi í þessum málum að bera kostnað sinn sjálfir og því sé mikilvægt að ekki sé vikið frá því nema sérstakar aðstæður séu fyrir hendi. Ég játa það að hv. þingmaður kemur að mér svolítið köldum með þetta þannig að ég skal glaður taka þetta upp á vettvangi nefndarinnar aftur til nánari skýringar og skoðunar ef þörf krefur.