150. löggjafarþing — 102. fundur,  12. maí 2020.

dómstólar o.fl.

470. mál
[17:58]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég hygg að varðandi fyrra atriðið sem hv. þingmaður nefnir hafi komið fram við málsmeðferð í nefndinni að um val embættisdómara myndu verða settar reglur af hálfu dómstólasýslunnar. Ég held að það hafi komið fram með skýrum hætti, annaðhvort fyrir nefndinni eða í skriflegum upplýsingum sem fyrir nefndina voru lagðar. Ég geri ráð fyrir því að gengið verði frá því með þeim hætti að það séu skýrar og gagnsæjar reglur sem gilda um það hvernig embættisdómarar verða skipaðir af hinum mismunandi dómstigum.

Varðandi hina tvo sérstöku, ef við köllum þá utanaðkomandi, dómara, sem ætlunin er að verði skipaðir í endurupptökudóminn, þá hljóta hæfisreglur að koma til skoðunar. Vissulega geta viðkomandi einstaklingar verið vanhæfir af ýmsum sökum. Það sama á auðvitað við t.d. um endurupptökunefnd í dag og hefur leitt til þess að varamenn hafa þurft að taka sæti og menn hafa þurft að taka tillit til svona sjónarmiða. Ég held að það sama eigi við í þessu tilviki, það þarf auðvitað að gæta mjög að hæfnisskilyrðum viðkomandi dómara. Auðvitað getur það verið í praxís svolítið snúið að finna einstaklinga sem uppfylla bæði hin almennu hæfnisskilyrði og eru ekki líklegir til að verða vanhæfir (Forseti hringir.) í fjölda mála. En það er kannski erfitt að komast fram hjá því svona almennt (Forseti hringir.) jafnvel þó að um sé að ræða aðstæður af þessu tagi (Forseti hringir.) og í því tilviki þegar um er að ræða aukastörf hjá mönnum en ekki aðalstarf.

(Forseti (ÞorS): Forseti minnir á tímamörk.)