150. löggjafarþing — 102. fundur,  12. maí 2020.

dómstólar o.fl.

470. mál
[18:00]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Jú, það er rétt að þetta vandamál hefur svo sem blasað við endurupptökunefndinni hingað til en það er þó ólíku saman að jafna, stjórnsýslunefnd eða dómstól. Með frumvarpinu er t.d. gert ráð fyrir að menn séu skipaðir dómarar og að um þá gildi reglur um hæfi, sérstakt og almennt, eins og á við um dómara og einnig ákvæði, lög og reglur, um aukastörf dómara. Ég velti fyrir mér hvort ekki hefði þurft að fara fram aðeins ítarlegri skoðun en mér heyrist á hv. framsögumanni að hafi farið fram á þessu atriði og hvort eðlilegra sé að sleppa því að hafa utanaðkomandi einstaklinga í þessu sem, eins og menn þekkja, allar líkur eru á að verði mjög oft vanhæfir í einstökum málum, a.m.k. á það við um þá lögfræðinga sem eitthvað hafa að gera, ef menn ætla að líta til lögmanna í þessu sambandi. Eða mun þetta leiða til þess að það verði afskaplega einsleitur hópur lögfræðinga sem komi til greina, eingöngu einhverjir úr háskólasamfélaginu sem eigi að sitja þarna? Þá hefði kannski verið allt eins gott að nefna það hér.

Ég velti fyrir mér hvort hv. framsögumaður telji ástæðu til að skoða þetta frekar og einnig það atriði hvernig þeir sem tilnefndir eru af dómstólunum eru valdir. Ég hef nefnt það við fyrri flutning þessa máls á þingi, í öðru formi þó, að það ætti að vera sérstaklega til skoðunar að reyna að velja þessa dómara með tilviljanakenndum hætti, ekki þannig að valdir séu dómarar eftir því hverjir gefa sig fram, heldur væri t.d. hægt að hafa þetta með hlutkesti, (Forseti hringir.) hver dómstóll myndi tilnefna eftir hlutkesti fulltrúa sinn (Forseti hringir.) til ákveðins tíma sem yrði síðan háð breytingum með reglulegum hætti.