150. löggjafarþing — 102. fundur,  12. maí 2020.

dómstólar o.fl.

470. mál
[18:05]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að hrósa forseta fyrir sína mildilegu fundarstjórn, að leyfa samþingmönnum að vera í andsvörum hvor við annan þótt þeir séu í sama þingflokki. Mér finnst þetta dæmi einmitt sýna þörfina á því að skýra þær reglur sem um slík andsvör gilda vegna þess að sú undanþága sem var veitt til að fara í andsvör við samflokksmenn snýst um það þegar fólk er á öndverðum meiði og ansi erfitt skilyrði að uppfylla fyrir fram og var, að ég held, ekki uppfyllt í þessum andsvörum. Ég ætla ekki að gera sérstaka rekistefnu um það við virðulegan forseta en tel ástæðu fyrir forsætisnefnd að skoða þau mál og athuga hvort þessar reglur séu yfir höfuð framkvæmanlegar með einhverjum undantekningum, hvort það eigi annars vegar að skoða að hafa þær algildar þannig samflokksfólk geti aldrei farið í andsvör hvert við annað eða að afnema þessar reglur. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)