150. löggjafarþing — 102. fundur,  12. maí 2020.

dómstólar o.fl.

470. mál
[18:07]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (um fundarstjórn):

Ég kem hingað til að útskýra fyrir landsmönnum hvaða leikfimi er í gangi. Þetta er svokölluð þingskapaleikfimi. Menni eru misfimir í henni en báðir þeir þingmenn sem hér hafa rætt eru mjög fimir. Það sem þetta gengur út á er að síðasta vor var einn þingflokkur í málþófi. Forseti þingsins sagði: Hvernig get ég komið í veg fyrir það í framtíðinni að einn þingflokkur geti stundað málþóf? Jú, við bönnum samsvör við ræðum. Það þýðir að sá andsvararéttur sem þingmenn hafa er klipptur af þingflokki nema þeir séu í raunverulegum andsvörum, og þar af leiðandi er túlkunargildi þingforseta komið inn í það. Það geta mjög fáir stundað málþóf á þingi og þar með stöðvað þingið. Það eru alveg málefnalegar ástæður til að stöðva það en það eru líka heimildir í þingsköpum til að stöðva og segja bara: Umræðunni er lokið og við höldum áfram. En menn vilja ekki beita því ákvæði svo þeir fara einhverjar krókaleiðir að þessu. Eðlilegasta aðferðin til að stöðva málþóf er að þjóðin sjálf fái málskotsrétt, að þjóðin sjálf geti stoppað mál sem þingið hefur samþykkt en þjóðin er ósammála. Málskotsrétt til þjóðarinnar. Þá er engin réttlæting lengur fyrir þingmenn á því að stunda málþóf.