150. löggjafarþing — 102. fundur,  12. maí 2020.

dómstólar o.fl.

470. mál
[18:11]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Hér er mælt í þriðju tilraun fyrir frumvarpi til laga um Endurupptökudóm. Í þessu tilviki má segja að allt er þegar þrennt er. Ég vil fagna sérstaklega þeim breytingum sem gerðar hafa verið á þessu frumvarpi vegna þess að sú sem hér stendur og fleiri lögðum töluverða vinnu á okkur að stöðva forvera þessa frumvarps. Hvers vegna gerðum við það? Vegna þess að okkur fannst geðþóttavald dómsmálaráðherra í skipan dómsins vera allt of rúmt í fyrra frumvarpi og sömuleiðis fannst okkur ekki rétt að meiri hluti endurupptökudómstóls væri skipaður fagdómurum, þ.e. þeim sem sitja í dómstólum þá þegar. Okkur fannst það ekki til þess fallið að skapa traust á endurupptökudómstól að þar sætu dómarar jafnvel úr sömu dómstólum. Ef t.d. væri óskað eftir endurupptöku máls frá Hæstarétti væru alltaf meiri hluti dómenda frá dómstigum sem hefðu tekið þátt í því máli. Það er því mjög ánægjulegt að sjá þær breytingar sem hafa orðið á þessu frumvarpi og tel ég að það sé hægt að segja a.m.k. að ötul barátta okkar gegn ákvæðum frumvarpsins síðast og þarsíðast hljóti að hafa skilað einhverjum árangri með þessum umbótum hér. Ég er einkar ánægð með það að sjá að andóf, mótmæli og ötul vinna stjórnarandstöðu skili betra frumvarpi sem hægt er að taka undir að svo gott sem öllu leyti.

Ég get tekið undir áhyggjur hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur um gjafsóknina, ég hefði viljað sjá betur hugað að því í frumvarpinu. En ég hef ekki lengur áhyggjur af sjálfstæði dómstólanna eins og ég hafði í upprunalegri útgáfu frumvarpsins og ég hef heldur ekki lengur áhyggjur af því að vantraust myndist um samsetningu þessa dómstóls og að ákvarðanir dómstólsins hallist að því að vera aðeins of vilhallar dómstólunum sem dómararnir tilheyra vegna þess að nú er það orðið svo að dómarar utan dómskerfisins eru komnir í meiri hluta þeirra sem dæma í svona málum, tveir utan dómskerfisins og einn innan þess. Það er gríðarlega jákvætt framfaraskref.

Virðulegi forseti. Ég vildi bara koma hingað upp til að fagna þeim árangri sem náðst hefur með þetta frumvarp og gleðjast yfir því að nú skulum við fá Endurupptökudóm sem við getum verið stolt af.