150. löggjafarþing — 102. fundur,  12. maí 2020.

dómstólar o.fl.

470. mál
[18:15]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Í framhaldi af ræðu hv. þm. Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur vildi ég taka eitt fram. Almennt er ég þeirrar skoðunar að dómarar séu og eigi að vera sjálfstæðir í störfum sínum. Dómskerfi okkar, með þeim kæru- og áfrýjunarmöguleikum sem þar eru fyrir hendi, gera ráð fyrir því að dómarar endurskoði ákvarðanir og niðurstöður annarra dómara í mörgum tilvikum. Af þeim sökum hef ég ekki áhyggjur af því þó að dómarar í endurupptökudómstól séu embættisdómarar, bara þannig að það sé sagt. Í því frumvarpi sem hér birtist er hins vegar um að ræða ákveðna málamiðlun í þeim efnum. Á einhverjum tímapunkti var lagt til að embættisdómarar væru tveir en utanaðkomandi einn. Það var niðurstaða eftir umfjöllun bæði í fyrravetur og í vetur. En ég vil taka það fram að ef við teljum að allir sem skipaðir eru embættisdómarar séu einhvern veginn sjálfkrafa samdauna kerfinu, ef svo má segja, og þar af leiðandi ekki óháðir þegar þeir taka til endurskoðunar eða mats niðurstöður annarra dómara erum við svolítið komin frá þeirri hugsun sem dómskerfið byggir á með möguleikum á áfrýjun milli dómstóla, vegna þess að það kallar alltaf á að einn dómari endurskoði mat einhvers annars dómara.