150. löggjafarþing — 102. fundur,  12. maí 2020.

dómstólar o.fl.

470. mál
[18:17]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að segja að ég er mjög ánægð með þessa málamiðlun. Mér finnst hún vera rétt lending þannig að við erum kannski alls ekki ósammála. Ég er heldur ekki á því að dómarar séu yfir höfuð ófærir um að endurskoða ákvarðanir annarra dómara, bara alls ekki, langt í frá. Ég vil hins vegar meina að þegar um endurupptökudómstól er að ræða, þegar dómskerfi hefur lokið formlegri athugun sinni á máli og fram kemur beiðni um að taka málið upp að nýju sé það trausti almennings á því úrræði til heilla að aðilar utan dómskerfisins sitji í meiri hluta þótt vissulega sé hagræði í að hafa embættisdómara í þeirra röðum líka. Hvers vegna segi ég það? Vegna þess að viðkomandi einstaklingar eru búnir að fara í gegnum dómskerfið og vilja svo fara þangað aftur.

Ég tel betra fyrir bæði ásýnd endurupptökudómstóls og viðhorf almennings gagnvart honum að þar sjái utanaðkomandi einstaklingar um endurupptökumál. Þau orð eru alls ekki látin falla til að kasta með einhverjum hætti rýrð á sjálfstæði dómstóla eða draga það í efa að dómarar geti tekið sjálfstæðar ákvarðanir gagnvart kollegum sínum. En við vitum hins vegar að kerfi eiga það til að verja sig innbyrðis. Og það er oft upplifun margra, jafnvel þótt hún sé ekki rétt, að komi neikvætt svar frá t.d. endurupptökudómstól sé kerfið bara verja sig. Með þessari málamiðlun tel ég að það séu engar málefnalegar ástæður til að halda því fram og það er vel.