150. löggjafarþing — 102. fundur,  12. maí 2020.

dómstólar o.fl.

470. mál
[18:19]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S):

Virðulegur forseti. Ég tek undir það sem lýst er sem tilefni þessarar lagasetningar sem í stuttu máli eru núgildandi lög nr. 15/2013. Þau voru sett hér í tíð vinstri stjórnarinnar eftir efnahagshrunið, í hálfgerðu fáti, held ég að mér sé óhætt að segja, af tilteknu tilefni. Þessi lög komu á laggirnar sérstakri endurupptökunefnd, sérstakri stjórnsýslunefnd, sem hefur farið með umsóknir um endurupptöku fram til dagsins í dag. Kappið á þeim tíma var svo mikið að í lögunum var m.a.s. kveðið á um að endurupptökunefnd gæti með úrskurði sínum um að mál skyldi endurupptekið þá þegar um leið fellt niður þann dóm sem óskað var endurupptöku á. Þetta álitaefni kom síðan til kasta Hæstaréttar sem kvað réttilega að sjálfsögðu upp þann dóm að slíkt stæðist ekki stjórnskipan Íslands, að fela stjórnsýslunefnd, hversu fagleg og sjálfstæð sem hún kynni að vera, eins og oft er talað um þessar stjórnsýslunefndir í dag, þá væri það auðvitað ekki í samræmi við stjórnarskrá Íslands eða réttarríkið að fela slíkum nefndum það vald að fella niður dóma sem kveðnir væru upp af dómsvaldinu réttilega skipuðu. Þetta hefur því verið vandræðamál og eftir að þessi dómur Hæstaréttar var kveðinn upp hefur endurupptökunefnd tekið fyrir margar beiðnir og því er lýst í greinargerð að fjöldi beiðna hafi aukist ár frá ári og nefndin hefur fallist á nokkurn fjölda slíkra beiðna. Það hefur hins vegar ekki endilega haft í för með sér að dómum sé snúið við eða jafnvel að dómar hafi verið teknir upp heldur hefur það síðan komið til kasta dómstólanna sjálfra að fjalla um það og það hefur verið gert með ýmsum hætti og þá þannig að mál hafa gjarnan ekki fengið efnislega umfjöllun hjá dómstólnum en hefur verið metið þannig að ekki hafi verið nægilegar forsendur lögum samkvæmt fyrir endurupptöku, þ.e. ekki þannig gögn að skipt hafi máli.

Ég er sammála þessu tilefni, ekki er hægt að hafa stjórnsýslunefnd í því hlutverki að kveða upp úr um það með einhverjum hætti hvort dóma eigi að endurupptaka. Það skapar ekki og hefur ekki skapað nokkurt einasta réttaröryggi heldur hefur það þvert á móti kannski gefið mönnum einhvers konar sýn á falskt réttaröryggi eða óraunhæfar væntingar, skulum við segja, um framtíðarmálsmeðferð í máli sem þegar hefur verið lokið fyrir dómi. Að því leyti er ágætt að menn hafi áttað sig á þessu og þeir flokksmenn þeirra vinstri flokka sem stóðu að lagafrumvarpinu á sínum tíma hafi áttað sig á því að það verður að snúa til baka hvað þetta varðar og fela þetta dómstólum aftur.

Þá er hér farin sú leið að stofna nýjan dómstól og ég þekki svo sem málið. Ég lagði sjálf fram mál af þessum toga þegar ég gegndi embætti dómsmálaráðherra. Ég hafði hins vegar miklar efasemdir um málið eins og ég lagði það fyrir, ég get alveg sagt það og viðurkennt það. Það var nokkurs konar embættismannamál sem ég lagði fram í ljósi þess að það var brýnt að koma þessum málum úr höndum einhverrar stjórnsýslunefndar. En við umfjöllun málsins á þingi komu upp umræður um, og réttmætar ábendingar, að skipan þessa dómstóls þyrfti kannski að skoða eitthvað nánar. Í því máli sem ég lagði fram var til að mynda gert ráð fyrir að Lögmannafélag Íslands gæti tilnefnt mann, að sérstakur fulltrúi lögmanna ætti sæti þarna. Ég tel það ekki heppilegt fyrirkomulag að utanaðkomandi aðilar tilnefni sérstaklega fulltrúa sína í endurupptökudómstól. Nú er rétt að hafa í huga að þessi dómstóll kveður svo sem ekki upp neinn dóm eða neinar úrlausnir um efnisatriði þess dóms sem deilt er um heldur eingöngu hvort tilefni sé til þess, og forsendur séu fyrir því, að endurupptaka málið. Þannig að sú breyting sem hefur orðið hér á er skapleg að mínu mati. Gert er ráð fyrir að dómstólarnir þrír tilnefni einn dómenda af embættisdómurum í þennan dómstól eða í þennan dóm, einn af hverju dómstigi, en staða tveggja til viðbótar verði auglýst og þeir skipaðir með sambærilegum hætti og aðrir embættisdómarar og um þá gildi þar af leiðandi reglur um aukastörf dómara og almennar og sérstakrar vanhæfisreglur. Það er kannski helst þetta, hvað skipanina varðar, sem ég velti fyrir mér, hvort menn hafi áttað sig á því að mjög hætt er við því að það verði mjög þröngur hópur manna sem geti af praktískum ástæðum gefið kost á sér til þessara starfa, að vera skipaður dómari við endurupptökudóminn vegna sérstakra vanhæfisástæðna.

Ég óskaði eftir því á sínum tíma að hv. allsherjar- og menntamálanefnd fjallaði sérstaklega um það, í því máli sem ég lagði fram á fyrri þingum, hvort ferlið ætti ekki að vera gagnsærra af hálfu dómstólanna sjálfra þegar þeir tilnefna fulltrúa sinn í þennan dóm, ég gerði athugasemd við það. Og hv. framsögumaður þessa máls lýsti því hér í andsvörum við mig að það, eins og fram kemur í frumvarpinu, hefði verið rætt og talið nægjanlegt að dómstólasýslan setti reglur um þetta eftir á og það væri falið dómstólasýslunni, sem er stjórnsýslunefnd, að setja þessar reglur. Ég spyr af hverju menn hafa ekki viljað hafa það gagnsæi sem menn boða sýknt og heilagt hér í þingsal og að löggjafinn sjálfur setji bara reglur um þessa skipan. Geðshræringin hefur nú ekki verið svo lítil í þingsal þegar kemur að skipan dómara almennt svo að það má vel velta því fyrir sér af hverju hið háa Alþingi og hv. þingmenn treysta sér ekki til að setja reglurnar á blað um hvernig fara eigi með skipan þessara dómara. Ég tel sjálf að best færi á því að hver dómstóll myndi bara varpa hlutkesti meðal sinna dómenda, velja sinn fulltrúa með hlutkesti og skipa þá þannig í þennan dóm til þriggja eða fjögurra ára, eða hvað það er, og svo yrði hreyfing á þessu, kæmi einn nýr á hverju ári frá dómstólunum.

Ég tel reyndar að í okkar litla samfélagi , þar sem við erum að bítast um hverja einustu krónu til þarfra verkefna, hefði miklu betur farið á því að skipa þennan endurupptökudóm eingöngu þeim embættisdómurum sem fyrir eru en láta það vera að skipa nýja einstaklinga, fjölga þeim í raun, fjölga skipuðum dómurum með þessum hætti. Álagið á ekki að vera þannig, eins og fullyrt er í þessu frumvarpi, að það yrði þeim embættisdómurum sem nú þegar eru þar ofviða að taka að sér það aukastarf að sitja í endurupptökudómi. Ég vil líka nefna það hér og árétta, eins og kemur reyndar fram í greinargerðinni, að þótt ég sé ekki að flagga, og þurfi ekki að lesa eins og guðsorð, skýrslum sem sýknt og heilagt streyma frá ríkjahópi Evrópuráðsins um spillingu, GRECO, þá hefur hins vegar verið á það bent að það sé afskaplega ógagnsætt hvernig Hæstiréttur tilnefnir sinn fulltrúa í Félagsdóm og fleiri nefndir og ráð. Menn hafa bent á að það þyrfti að vera með einhverjum gagnsæjum hætti og ég hef rakið hér viðhorf mitt í því.

Ég vil hins vegar, virðulegur forseti, koma að því meginatriði sem frumvarpið lýtur að sem mér finnst brýnt að menn hafi í huga. Það er sú meginregla í íslensku réttarfari, og einn af hornsteinum réttarríkisins almennt, að endanlegur dómur sjálfstæðs og óvilhalls dómstóls í máli á að binda enda á þá þrætu sem leyst er úr. Menn eiga að geta treyst því að fari þeir með mál fyrir dómstóla verði þeim ágreiningi lokið þar. Hér á Íslandi höfum við þrjú dómstig. Það er héraðsdómur, það er Landsréttur sem við stofnuðum til að bregðast við þeim galla sem verið hefur á málsmeðferð í Hæstarétti, í sakamálum, þar hefur ekki verið farið fram á sérstakt sönnunarmat. Svo höfum við enn Hæstarétt sem velur mál til að fjalla um, mál sem varða allan almenning mjög miklu, snýst um mikilsverð atriði. En Hæstiréttur á að sjálfsögðu ekki að vera að fjalla um hefðbundin einkamál eða einhvern smáágreining ef maður getur sagt sem svo, heldur eru mál valin þar inn sérstaklega. Af þessu leiðir að það á einungis að vera í algjörum undantekningartilfellum að mál séu tekin upp. Það er þess vegna sem það er, bæði í lögum um meðferð einkamála og í sakamálalögum, tiltekið sérstaklega skýrt og afmarkað hvaða tilvik nákvæmlega geta leitt til þess að til greina komi að endurupptaka mál. Það hafa verið mjög þröng skilyrði og það er eðlilegt og það er gott og það er réttmætt að þau skilyrði séu þröng en séu ekki almenn.

Í frumvarpinu er reyndar gert ráð fyrir að í einkamálum séu þessi skilyrði töluvert rýmkuð þannig að gera má ráð fyrir að endurupptökubeiðnum fjölgi. Það er rekið í greinargerð hvernig þróunin hefur verið undanfarin ár en beiðnum til endurupptökunefnda hefur fjölgað ár frá ári og þeim beiðnum hefur líka fjölgað sem endurupptökunefnd hefur fallist á. Það má alveg gera ráð fyrir því að endurupptökubeiðnum muni fjölga enn frekar nái frumvarpið fram að ganga óbreytt og mér finnst það ekki kostur. Mér finnst það ekki auka réttaröryggi nokkurs manns í sjálfu sér að hægt sé að þvæla málum sem þegar hafa kannski farið í gegnum þrjú dómstig, að öðrum málsaðila verði síðan gert að bíða árum saman eftir fjórða dómstiginu og þá er um að ræða að mál fari fyrir Endurupptökudóm í ákveðna málsmeðferð þar til að fá úr því skorið hvort hægt sé að endurupptaka mál. Þetta held ég að hv. þingmenn þurfi að hafa í huga. Aðstæðurnar eru þær, svo að maður lýsi því bara raunhæft, að þeir einstaklingar sem reka sín mál fyrir dómi og tapa málum fyrir dómi á áfrýjunarstigi, Landsrétti eða Hæstarétti, spyrja að sjálfsögðu sinn lögmann hvað hægt sé að gera. Er eitthvað hægt að gera? Þá þarf lögmaður auðvitað að segja að hægt sé að sækja um endurupptöku, auðvitað með þeim skilyrðum sem umbjóðandinn hefur ekki endilega samúð með eða skilning á því að þau geta verið þröng. Mikill þrýstingur mun verða settur á lögmenn og þeir geta jafnvel sjálfir, einhverjir, búið hann til, að reyna allt hvað hægt er til að fá dómi á æðsta stigi snúið. Það er bara mannlegt eðli og það mun leiða til þess að kostnaður einstaklinga og ríkissjóðs af málaferlum, að ekki sé talað um sálrænar og andlegar raunir þeirra sem þurfa að fara í gegnum dómstólana með sín viðkvæmu og persónulegu mál, verður meiri og vex með þessu fyrirkomulagi. Mér finnst mikilvægt að menn átti sig á því.

Einhverjir kynnu að spyrja: Hvað ættum við þá annað að gera? Er þetta eina leiðin? Nei, það er ekki eina leiðin að setja á stofn nýjan dóm, Endurupptökudóm, til að uppfylla þær kröfur og heimildir sem eru í lögum um meðferð einkamála og sakamála, þ.e. þann rétt einstaklinga að fá mál upp tekið aftur ef allt í einu birtast ný gögn sem bersýnilega eru þannig að þau kunna að leiða til annarrar niðurstöðu. Það er sjálfsagður réttur sem við eigum auðvitað að standa vörð um. En lögin frá árinu 2013, sem vinstri stjórnin setti hér, og menn vilja nú réttilega hlaupa sem hraðast frá og fella niður sem fyrst, voru ekkert upphaf á þessum endurupptökumálum. Fyrir þann tíma voru að sjálfsögðu settar fram beiðnir um endurupptöku og þær fengu réttmæta, málefnalega og löglega meðferð fyrir dómstólum. Það er ekkert nýtt. Það hefur alltaf verið. Þess vegna hefði kannski verið eðlilegast og raunhæfast, ég tala nú ekki um eins og ég nefndi áður í okkar litla samfélagi sem er að reyna að draga úr yfirbyggingu, að í stað þess að bæta við fjórða dómstiginu og fjölga enn frekar skipuðum dómurum hefðu menn kannski átt að prófa að afnema lög nr. 15/2013 og hverfa aftur til þess fyrirkomulags sem var fyrir þann tíma. Enda voru lögin sett hér, eins og ég nefndi í upphafi, ekki af litlu tilefni heldur af tilteknu tilefni. Og það er vont þegar lagasetning um almenn atriði fer fram af tilteknu tilefni til að stemma stigu við einhverju tilteknu einu vandamálin sem nú er búið að leysa. Ég er að vísa til Guðmundar- og Geirfinnsmálsins og þeirrar umræðu sem var á þeim árum í kringum það mál. En lögin nr. 15/2013 voru ekki framfaraskref í íslenskri réttarsögu og það er rétt að hverfa frá þeim lögum, fella þau niður. Ég tel hins vegar að það hefði átt að vera umræðunnar virði að láta þar við sitja a.m.k. fyrst um sinn og leyfa dómstólunum að fjalla um endurupptökubeiðnir eins og dómstólar hafa verið að gera frá því að þeir voru settir á laggirnar og frá örófi alda, ef svo má segja, og fjalla um það hvort skilyrði séu til þess að taka upp dóma sem þeir hafa kveðið upp. Það má heldur ekki vera þannig að með lagasetningu eins og þessari, nái frumvarpið fram að ganga, séu almenningi gefnar óraunhæfar væntingar um það að þegar málum er lokið í Hæstarétti eða Landsrétti, ef það er síðasti dómstóllinn til að fjalla um tiltekið mál, séu einhverjir möguleikar á að fá slík mál uppgefin jafnvel þó að eitthvað finnist sem mönnum finnst hafa skipt máli. Það eru og eiga eftir sem áður að vera mjög þröng skilyrði fyrir því að endurupptaka mál. Öðruvísi fáum við ekki lifað saman í sátt og samlyndi ef við ætlum ekki að sætta okkur við dóma sem eiga að ljúka ágreiningi okkar á milli.