150. löggjafarþing — 102. fundur,  12. maí 2020.

dómstólar o.fl.

470. mál
[18:41]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að draga þetta fram ef ég hef ekki verið nógu skýr. Það er alveg rétt að gert er ráð fyrir að þeir tveir sem munu skipa þessi auglýstu embætti sinni öðrum störfum. Að því leyti falla þeir ekki undir þá bannreglu laganna að þeir megi ekki sinna öðrum störfum. Þeir þurfa hins vegar að hlíta því ákvæði að gera grein fyrir þeim störfum sínum, öllum störfum, og þeir þurfa að gera grein fyrir hlutum í félögum og annað. Allt þetta nefni ég sem dæmi um að þetta gæti orðið þess valdandi að það verði svolítið fáir sem muni gefa sig að þessu nema einhver svona hópur sem kannski á létt um vik að upplýsa um alla þessa þætti. Kannski eiga margir létt um vik, ég er ekki að segja það, en þetta er svona aukakvöð. Ég er t.d. ekki viss um að mörgum starfandi lögmönnum, sem sitja í alls konar stjórnum tímabundið starfa sinna vegna og annað, finnist eftirsóknarvert að fara að gera grein fyrir öllu slíku til að setjast í eitthvað svona. Þá erum við komin með svolítið þröngan markhóp, ef svo má segja, eða þröngan hóp, sem býður sig fram og þá er ég ekki endilega viss um að tilgangi laganna eða þessa ákvæðis sé náð, sem er kannski að fá fjölbreytta sýn inn í dóminn. Mér finnst miklu betur fara á því að þeir sem eru skipaðir dómendur séu skipaðir dómendur að fullu leyti og við höfum, eins og ég nefndi í ræðu minni, sitjandi dómara, embættisdómara, sem eiga vel að geta farið í þetta. Svo er hitt að þessi auglýstu embætti fara í gegnum hæfisnefnd sem þingheimur þekkir, og ég ekki síst, þekki afskaplega vel. Þar heyrist manni að hver höndin sé upp á móti annarri við skipan dómara þessa dagana. Ekkert að marka nokkurn hlut, að því er virðist, sem kemur út úr þessari nefnd (Forseti hringir.) og mönnum er raðað í einhverja hæfnisröð með, að manni finnst, (Forseti hringir.) með ógagnsæjum hætti, ég ætla þó ekki að fullyrða að það sé með ómálefnalegum hætti.