150. löggjafarþing — 102. fundur,  12. maí 2020.

dómstólar o.fl.

470. mál
[18:46]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það má ekki draga þá ályktun af því sem ég er að segja, um að t.d. lögmenn muni veigra sér við að sækja í dómarastarf við Endurupptökudóm, að menn hræðist það eitthvað. Eðli lögmannsstarfa er hins vegar þannig að menn eru bundnir ákveðnum trúnaði við umbjóðendur sína. Þeir geta ekki endilega upplýst um alla sína vinnu eða fyrir hvern þeir eru að vinna á hverjum tíma. Það er vandinn. Þeir myndu alveg örugglega ekki sækjast eftir að sitja hér á þingi, margir starfandi lögmenn, ef þeir þyrftu að gefa upp alla sína kúnna. Menn þekkja dæmin. Menn myndu þá leggja þá til hliðar á meðan þingsetu stendur. Ég held að það sé einboðið að það verði miklu þrengri hópur sem mun sækja í þetta en vonir stóðu kannski til hér á þinginu með því að hafa ákvæði um að fá einhverja utanaðkomandi að málinu. Hvaða utanaðkomandi verða það? Af því að skilyrðin fyrir því að sækja um þessar stöður eru svo þröng, það þurfa að vera lögfræðingar sem geta uppfyllt skilyrði til þess að verða embættisdómarar. Það er bara þetta sem ég nefni og þess vegna ítreka ég aftur að ég hefði talið betur fara á því að hafa þessa embættisdómara sem eru þegar að störfum, fjölga þeim þá kannski úr hverju dómstiginu, vilji menn endilega hafa 5 til að geta gripið í, frekar en að fjölga þeim með þessum hætti. Og hvað hæfnisnefndirnar varðar, þessi auglýsingaferli, nefni ég það og ítreka að við höfum verið að sjá núna niðurstöður frá þessum hæfnisnefndum vegna umsókna um auglýstar stöðu, bæði í Landsrétti og Hæstarétti, undanfarið. Niðurstöðurnar koma á óvart, alveg ótrúlegar niðurstöður. Fólk sem var fyrir nokkrum vikum metið jafn hæft, fyrir nokkrum vikum, er nú allt í einu bara alls ekki hæft. (Forseti hringir.) Einhver allt annar, sem var metinn minna hæfur en það fólk, er nú metinn hæfastur. (Forseti hringir.) Það vantar allt gagnsæi í þetta og það er oftrú hjá hv. þingmanni á ráðherraræðinu (Forseti hringir.) að hann geti stjórnað þessari nefnd með þessum hætti. Það hefur sýnt sig.