150. löggjafarþing — 102. fundur,  12. maí 2020.

fjárstuðningur til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

725. mál
[19:10]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Forseti. Það var farið hratt af stað og það þurfti að grípa strax inn í og bjarga því sem bjargað yrði þegar við sáum fram á hvernig heimsfaraldurinn var að þróast. Við vissum ekki að við næðum að fletja út kúrfuna, vissum ekki hvar við vorum. Þegar farið var af stað hjá þessari ríkisstjórn og gert mjög hratt sást mönnum yfir og þeir gerðu ekki ýmsa hluti eins og t.d. að styrkja ekki fyrirtæki sem eru nýbúin að greiða sér út gríðarlega mikinn arð án þess að þau kæmu með þann arð til baka. Eigendurnir þyrftu líka að taka þátt í þessu.

Það er skiljanlegt að mönnum yfirsjáist hlutir en á þetta var bent þá. Jafnframt var í þeirri umræðu bent á að við þyrftum að koma í veg fyrir að fyrirtæki í skattaskjólum gætu nýtt sér úrræðið. Við hefðum þurft að skjóta loku fyrir það að greiða himinháa bónusa. Við hefðum þurft að passa upp á það að ef ríkið kæmi með fé að borðinu gæti það þurft að eignast hluti eða kröfur í fyrirtækjunum, fara einhverjar leiðir til að passa upp á að ekki væri misfarið með almannafé á þessum tímum.

Hvers vegna menn kjósa að nýta ekki tækifæri minni hlutans til að benda á (Forseti hringir.) og koma með lausnir í þessu máli verða þingmenn meiri hlutans að gera upp við sjálfa sig og síðan kjósendur þegar í ljós kemur að fyrirtæki eins og Bláa lónið hafa greitt út arðinn, 66°norður er núna með sinn rekstur í skattaskjólum. Þetta er á ábyrgð meiri hlutans ef hann getur ekki sinnt þessu betur en svona.