150. löggjafarþing — 102. fundur,  12. maí 2020.

vernd uppljóstrara.

362. mál
[19:28]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðuleg forseti. Þingflokkur Pírata greiðir atkvæði gegn þessari breytingartillögu þar sem við teljum hana vera málinu til trafala, stangast á innbyrðis við efni frumvarpsins og setja of ströng skilyrði á þann hvata eða þann ásetning sem á að liggja að baki uppljóstrun. Þetta teljum við til þess fallið að setja of mikinn fókus og of mikla áherslu á ásetning uppljóstrara umfram efni uppljóstrunarinnar og ganga gegn markmiðum frumvarpsins sem er að upplýsingar sem eigi erindi við almenning komi upp á yfirborðið.

Af þeim sökum segjum við nei við þessari breytingartillögu en við teljum það auðvitað til bóta að uppljóstrarar njóti aukinnar verndar hér á landi og munum segja já við frumvarpinu sjálfu.