150. löggjafarþing — 102. fundur,  12. maí 2020.

fjarskipti.

775. mál
[19:54]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að taka þetta upp. Allt þetta frumvarp er tæki til að viðhalda samkeppnishæfninni, bæta neytendavernd á þessu sviði og halda við því forskoti eða þeirri stöðu sem við erum með framarlega í heiminum á sviði fjarskipta. Eins og hv. þingmaður kom inn á hefur verið umtalsverð alþjóðleg umræða, sérstaklega í Evrópu, um öryggi 5G-þjónustunnar. Hún er bara áframhald og byggð ofan á 2G, 3G og 4G og nauðsynlegur partur þjónustufyrirtækja á þessum markaði. Hins vegar hefur verið á það bent að það séu bara þrjú frambærileg fyrirtæki í heiminum á þessum markaði. Þar hafa menn litið svo á að í því gæti falist öryggisveikleiki ef aðeins væri búnaður frá einu fyrirtæki og að öryggisfjarskiptakerfi heilla þjóðasvæða væru algjörlega háð einum birgi. Þess vegna hafa menn litið svo á að það þurfi að lágmarki að setja upp tveggja birgja lausn, þ.e. að kerfið sem yrði byggt upp yrði a.m.k. frá tveimur af þessum þremur birgjum, jafnvel öllum þremur, til að viðhalda samkeppni á milli þeirra og þannig tryggja að menn verði ekki um of háðir einu fyrirtæki.

Síðan hefur líka verið á það bent að vegna almannavarna eða þjóðaröryggishagsmuna þurfi að tryggja að af því að þetta verður miðtaugakerfi 5G-kerfisins þurfi hugsanlega að skilgreina ákveðna hluta út frá þjóðaröryggi. Það er sjálfsagt að nefndin (Forseti hringir.) setji sig svolítið ofan í þær pælingar. Eins og kemur fram í frumvarpinu hafa menn ekki að fullu gert sér grein fyrir því nákvæmlega hvaða hlutar það væru. Þeir eru í þróun.