150. löggjafarþing — 102. fundur,  12. maí 2020.

fjarskipti.

775. mál
[19:57]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið við andsvari mínu. Hann kom inn á það sem ég ætlaði að tæpa á í seinna andsvari mínu en það er akkúrat þessi alþjóðasamvinna þegar kemur að öryggisþættinum varðandi 5G-farnetsþjónustuna. Eins og gerð er grein fyrir í frumvarpstextanum, sérstaklega um 87. gr., tengjast þessir hlutar öryggissamstarfi Íslands. Sem varaformaður utanríkismálanefndar hef ég mikinn áhuga á að sjá hvernig við munum síðan vinna áfram með þessi mál þegar þau tengjast öryggis- og varnarmálum. Eins og kemur fram er í 3. mgr. 87. gr. lagt til að ráðherra sem fer með fjarskiptamál samkvæmt forsetaúrskurði geti, að fengnum umsögnum ráðherra sem fara með utanríkis- og varnarmál, almannavarnir og löggæslu, kveðið í reglugerð á um að búnaður, eins og hæstv. ráðherra kom inn á, sem teljist viðkvæmur með tilliti til almannahagsmuna og öryggis ríkisins, skuli í heild sinni eða að ákveðnu hlutfalli vera frá framleiðanda í ríki sem Ísland á öryggissamstarf við.

Hæstv. ráðherra kom undir lokin á svarinu inn á þróunina í alþjóðasamstarfinu og út frá öryggissjónarmiðunum langar mig að fá fram hjá hæstv. ráðherra hvort hann telji að við þurfum að setja fjarskiptamál ofarlega á oddinn þegar kemur að þjóðaröryggisstefnu okkar, líkt og við sjáum með farsóttir eins og núna í kjölfar Covid, að við höfum kannski ekki sinnt þessum þætti nógu vel þegar kemur að þjóðaröryggismálum. Ég velti fyrir mér hvort hann sjái fyrir sér að með þessu frumvarpi, með þessum hröðu tækninýjungum í fjarskiptatengingunum, fjarskiptaþjónustu 5G, þurfi í raun og veru að auka mikilvægið þegar kemur að þjóðaröryggismálum og taka fjarnetsþjónustu með markvissari hætti inn í þá vinnu.