150. löggjafarþing — 102. fundur,  12. maí 2020.

fjarskipti.

775. mál
[20:10]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir ræðuna og ætla að bregðast aðeins við nokkrum atriðum í henni. Varðandi netöryggismálin er alveg rétt að þetta eru verkefni sem eru sífellt vaxandi og ég vil rétt halda því til haga að vissulega hefur margt gott verið gert hérlendis á þessu sviði. Við þurfum þó að gera betur og meira og það verður veruleg bót að fá lögin í gildi 1. september nk. Það þýðir að ýmsir aðilar, fyrirtæki og stofnanir sem flokkast undir mikilvæga innviði, þurfa þá að gera ýmsar ráðstafanir til að efla öryggi hjá sér og eru sjálfsagt að vinna í því.

Póst- og fjarskiptastofnun og eftirlitsstofnanir gegna síðan lykilhlutverki í að efla öryggi þeirra sem þarf að hafa eftirlit með. Netöryggissveitin hjá Póst- og fjarskiptastofnun verður efld, fær aukið hlutverk og meira fé sem fer sérstaklega til netöryggissveitarinnar. Hún verður byggð upp til að takast á við þetta.

Í netöryggisráði fer fram mikið samstarf og samhæfingarvinna. Í raun og veru höfum við sett fram markmið í netöryggismálum í fjarskiptaáætlun og erum að vinna samkvæmt því. Það er rétt sem hér hefur komið fram, að það er gert m.a. á grundvelli skýrslunnar frá háskólanum í Oxford.

Ég vildi nefna með menntunina af því að við uppgötvuðum í samskiptum okkar við Oxford-skóla og tækniskóla í Noregi að það væri hreinlega mikill vilji af þeirra hálfu til að koma hingað og halda hér námskeið. Það var gríðarlega eftirsótt sem kom skemmtilega á óvart. Þeir gerðu það bara vegna þess að þá langaði til að deila með okkur þekkingunni. Við héldum hérna netöryggismánuð í október og það verður væntanlega árlega framvegis í samvinnu við önnur Evrópulönd. Ráðuneytið hélt hérna netöryggiskeppni sem mjög margir tóku þátt í og þannig búum við kannski til áhuga og eflum svolítið eftirspurnina eftir því að taka þátt í þessu öllu saman. Ég held að við verðum bara að viðurkenna að þarna er (Forseti hringir.) nýtt svið sem þarf meiri athygli en við höfum veitt því á mörgum umliðnum árum.