150. löggjafarþing — 102. fundur,  12. maí 2020.

fjarskipti.

775. mál
[20:14]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég kem hingað fyrst og fremst til að draga fram hvað við erum að ræða hér mikilvægt mál, frumvarp til laga um fjarskipti, sem í felst heildarendurskoðun á fjarskiptalögum og gildir um fjarskipti, fjarskiptaþjónustu og fjarskiptanet hér á landi. Eins og fram er komið er þetta mjög viðamikið mál sem verður sannarlega áskorun fyrir umhverfis- og samgöngunefnd að fara yfir og kanna til hlítar. Frumvarpið er í 16 köflum, meira en 100 greinar og skjalið með greinargerð er 135 blaðsíður. Eins og fram hefur komið hér hugsa ég að fæstir þingmenn séu búnir að lesa það núna.

Það kemur líka inn á fjölmörg svið samfélagsins. Hér er búið að ræða talsvert um þjóðaröryggið og tengsl við utanríkismálanefnd. Mér fannst mjög gott að þær ábendingar kæmu fram við 1. umr. og tek þær með mér inn í umhverfis- og samgöngunefnd. En mér finnst líka mjög mikilvægt að draga fram almannavarnahlutverkið sem er í þessu frumvarpi og bendi á að hér er einmitt komið inn á hluti sem hafa verið mjög til umræðu í vetur eftir óveður vetrarins. Í 99. gr. eru beinlínis nýjar heimildir til að nýta fjarskiptakerfin betur, hvort sem það er vegna þess að það trufli öryggisfjarskipti eða til þess að tryggja fjarskipti þar sem verður þjónusturof einhverra hluta vegna. Þarna sýnist mér í rauninni alveg um nýmæli að ræða.

Eitt af því sem ég hef haft mjög augun á í Kóðanum, sem er nafnið sem frumvarpið gengur undir, þegar hann hefur komið til umræðu er að umhverfis- og samgöngunefnd fari mjög vel yfir að lagaumhverfið, þessi lagabálkur, tryggi að sveigjanleikinn sem er í evrópska regluverkinu skili sér inn í íslenska löggjöf þannig að heimildir til hagkvæmrar uppbyggingar og samvinnu við uppbyggingu innviða skili sér örugglega. Það er lögð áhersla á hvata til samvinnu þar sem það á við en í grundvallaratriðum byggir samt allt kerfið á samkeppni. Þessir hvatar geta átt við, t.d. geta hvatar til sameiningar átt við í dreifbýlinu til að byggja upp grunnnet sem samkeppni byggist svo ofan á. Þetta hefur verið mikið til umræðu í tengslum við ýmis mál í umhverfis- og samgöngunefnd síðustu tvö árin og verður örugglega rætt meira við umfjöllun um þetta mál.

Neytendaverndin er líka mjög stór hluti af þessu frumvarpi og mikilvægt að kanna til hlítar að hvernig hún skilar sér alla leið til neytenda. Eins og er þegar komið fram í umræðunni hefur umhverfis- og samgöngunefnd fjallað um og þingið afgreitt mjög mikilvæg fjarskiptamál á þessu kjörtímabili, þ.e. Nice-tilskipunina, sem sagt netöryggismálin sem eru algjörlega að fara í nýjan farveg á þessu ári. Svo var fjarskiptaáætlun afgreidd á síðasta ári sem er mjög mikilvægur grundvöllur allrar framþróunar í fjarskiptum í landinu. Eitt af fyrstu málunum sem við afgreiddum á yfirstandandi þingi var hagkvæm uppbygging fjarskiptainnviða. Þetta eru allt mjög mikilvæg mál, mál sem við á Alþingi verðum að fara vel yfir og leggja tíma og vinnu í og sýna áhuga, eins og hér hefur komið fram.

Við höfum verið framarlega í fjarskiptum og við eigum að vera það. Það er mikilvægt að við innleiðum þessa löggjöf hratt og vel því að hún er undirstaða framþróunar og öryggis og einn liður í að tryggja samkeppnishæfni landsins. Ég ætla samt að leyfa mér að segja að ég efast um að okkur takist að klára þetta mál á þessu þingi en það er mjög mikilvægt að við gerum tilraun til þess, könnum það, fáum inn umsagnir og skoðum málið, þó að það yrði hugsanlega ekki afgreitt fyrr en á haustþingi. Ég mun í það minnsta leggja mitt af mörkum til að við komumst eins langt og mögulegt er á yfirstandandi þingi.

Eitt af því sem þarf að fara yfir, eins og jafnframt hefur komið fram í umræðunni, er áhættumat, að það sé skýrt hvernig kerfin og fjarskiptin eru áhættumetin út frá ýmsum utanaðkomandi þáttum, hvort sem er náttúruleg áhætta, það að verða ekki of háð einum framleiðanda eða á einhvern hátt of háð tilteknum þáttum. Hluti af örygginu er að hafa nægar tengingar til annarra landa og eins að kerfið innan lands skapi ekki falskt öryggi heldur raunverulegt öryggi sem við byggjum öll á.

Þá ætla ég, virðulegi forseti, að láta þessari umfjöllun minni við 1. umr. lokið en ég bíð spennt eftir að fá inn umsagnir til umhverfis- og samgöngunefndar og fjalla um málið á þeim vettvangi.