150. löggjafarþing — 102. fundur,  12. maí 2020.

fjarskipti.

775. mál
[20:21]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Herra forseti. Hér er komið fram gríðarlega stórt og mikið mál sem leynir töluvert á sér og fellur kannski í skuggann af öðrum málum þessa dagana. Ég reikna með að málið eigi eftir að fá mikla umfjöllun í störfum þingsins, þá sérstaklega í umhverfis- og samgöngunefnd og mögulega í utanríkismálanefnd. Eins og kemur fram í máli þingmanna væri æskilegt að hv. utanríkismálanefnd myndi líka ræða þessi mál. Ég hef ekki haft mikinn tíma til að kynna mér málið vel en náði að fletta í gegnum það um daginn. Hér er ég gleraugnalaus og það skánar ekki við það.

Það sem ég vil helst vekja athygli á í málinu er 87. gr. sem ég tel gríðarlega mikilvæga og þurfa virkilega mikla og öfluga umfjöllun í þinginu. Hún er satt að segja eitt af grundvallarmálum framtíðarinnar. Í greinargerðinni þar sem fjallað er um 87. gr. er setning sem ég ætla að fá að lesa, með leyfi forseta:

„Ljóst er að 5G-fjarskipti verða miðtaugakerfi samfélags framtíðar.“

Þetta er orðað mjög vel í þessari einu setningu. Hér er verið að tala um miðtaugakerfi framtíðarinnar sem er gríðarlega mikilvægt. Út frá þjóðaröryggismálum er grundvallarmálefni á næstu árum og áratugum hvernig fer með þessi mál.

Þetta hefur verið stórt málefni á NATO-þinginu og sjálfsagt víða í erlendu starfi þingmanna þar sem kemur að þessum málum. Cyber Security netárásaöryggisstofnunin í Tallinn hefur verið þar mikið til umræðu. Önnur svipuð stofnun í Helsinki fer með öryggismál sem tengjast þessum málum. Það er fróðlegt og ég tek undir þau sjónarmið sem komu fram áðan um að það er helst að við getum litið til Norðurlandanna í samvinnu í netöryggismálunum á þeim skala sem hér hefur verið talað um. Þetta eru það viðkvæm mál í alþjóðasamstarfi að það þarf býsna mikið til að þjóðríki vinni saman nákvæmlega í þessum málum. Í NATO-þinginu finnur maður alveg að það er ekki víst að öll 50 löndin séu tilbúin að vinna akkúrat í þessum málum í eins náinni samvinnu og við þurfum að sjá. Við erum lítið land og við treystum töluvert á að ná samvinnu við erlend ríki, Norðurlöndin og væntanlega þá baltnesku löndin með, eins og góð samvinna hefur náðst með þeim. Þau eru áhugasöm um að vinna með Norðurlöndunum. Þá er ég að tala um Eistland, Lettland og Litháen.

Við sjáum hvernig umræðan hefur verið í Bretlandi um þessi mál. Það var mikil og erfið umræða í Bretlandi um 5G og þar kom m.a. fram að Bretarnir settu einhvers konar hindranir eða vildu gæta mjög vel að því sem þeir kalla kjarnann í 5G-kerfinu sem væri sirka 35% af kerfinu. Ég reikna með að umhverfis- og samgöngunefnd taki þétt á því sem hefur farið fram í nágrannalöndunum um þessi mál. Þetta tengist svo mörgu, hvort sem það eru netárásir eða „false information“, falsfréttirnar, og slíkir hlutir. Það er ánægjulegt og var mjög gott verk með Oxford-skýrsluna sem kom fram fyrir ekki svo löngu síðan með áherslupunktum þar. Síðan er punkturinn með fjarskiptin á norðurslóðum. Þetta er svo stórt og mikið mál í þessu samhengi. Þegar við tölum um miðtaugakerfi framtíðar hér á landi er þetta, ef ég man rétt, sirka tífalt gagnamagnið sem getur farið um 5G á móti 4G í farnetum eða farsímum. Þetta er gríðarlega stórt.

Ég ætla svo sem ekkert að fara nánar í þetta. Ég held að mesta umræðan verði um 87. gr. og það sem kemur fram í 1. mgr. og 2. mgr. hennar. Í 1. mgr. ákvæðisins í lögunum er verið að ræða um þróun og uppbyggingu farneta- eða farsímakerfa og hvernig eigi að bregðast við áhættuþáttum er varða almannahagsmuni og öryggi. Ég vek athygli hv. þingmanna sérstaklega á því sem þar kemur fram.

Þetta er viðamikið mál eins og þingskjalið sýnir, 135 síður. Þó að ég hafi ekki farið í gegnum allt í frumvarpinu finnst mér tilhlýðilegt að segja að ég vona að athygli hv. þingmanna verði á þessu máli í meðförum þingsins vegna þess að hér er um gríðarlega stórt og mikið að ræða. Það er eitt af stóru málunum sem við þurfum að taka vel á í þinginu.