150. löggjafarþing — 103. fundur,  13. maí 2020.

flugsamgöngur til og frá landinu.

[15:04]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Það er ekki ofsögum sagt að vandinn sem við Íslendingar stöndum frammi fyrir sé heljarstór. Það er mjög brýnt að við tökum á honum af festu og snerpu. Við í Viðreisn skiljum þungann sem hvílir alla daga á ríkisstjórninni og höfum stutt og munum styðja aðgerðir hennar sem miða að því að lina þær þrengingar sem við erum í. Við höfum reynt að nálgast þetta, eins og ég hef sagt hér áður, með því hvernig við getum orðið að liði. Þetta er nefnilega ekki bara vandi ríkisstjórnarinnar heldur þjóðarinnar allrar.

Núna hriktir í stoðum Icelandair. Það er mjög flókin staða og ég er ekki að biðja ráðherra um að stíga inn í kjarabaráttu eða gefa út ákveðin skilaboð til að mynda til fjárfesta á þessu stigi. Öruggar samgöngur til og frá landinu eru lífæð þjóðarinnar. Þær eru nauðsynlegar fyrir ferðaþjónustuna okkar en þær eru líka ómissandi fyrir mikilvægan innflutning og ekki síður útflutning okkar Íslendinga. Það að á Íslandi séu tíðar flugsamgöngur til sem flestra áfangastaða er grundvallarstoð þess að til að mynda íslenskur fiskur komist sem fyrst ferskur á erlenda markaði. Samkeppnishæfni þjóðarinnar er að hluta til bundin þessu.

Það er vondur kostur í þessari stöðu, það er til verri kostur í þessari stöðu og það er til versti kosturinn í þessari stöðu. Mestu skiptir hins vegar fyrir okkur að inn- og útflutningur sé tryggður og að tengsl okkar við umheiminn séu óslitin. Næg er óvissan. Því vil ég spyrja hæstv. ráðherra í þessari snúnu stöðu sem ég hef allan skilning á: Hver er áætlun ríkisstjórnarinnar? Hvert er planið ef það verður brestur í framvindunni núna varðandi flugsamgöngur? Hvernig hyggst ríkisstjórnin stíga inn í til að tryggja þessi mikilvægu tengsl okkar Íslendinga við umheiminn?